150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:28]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þegar hv. þingmaður talar um úthverfin virðist hann hafa komist að sömu niðurstöðu og Andy Warhol sem sagði að Central Park væri skýrasta dæmið um að hægt væri að byggja náttúru inni í borginni en að hins vegar væri ómögulegt að byggja borgina inni í náttúrunni vegna þess að þá væri það orðin borg. Það verður alltaf að vera þannig að fólk verður að hafa val og það er ekkert að því þó að fólk vilji búa dreift upp að einhverju marki. Einhverjir vilja búa í húsum við náttúruna og aðrir vilja búa víða um land. Ég held hins vegar að það skipti máli að úthverfið sé hugsað þannig að það sé ekki almenna reglan og fólk sé a.m.k. ekki látið búa þar ef það vill það ekki. Ég hef það á tilfinningunni að mjög margir sem búa þar kjósi frekar að búa þéttar en það er kannski ekkert annað í boði á því verði sem fólk ræður við. Það skiptir miklu máli.

Ég bendi líka á það að mjög víða í Bandaríkjunum þar sem staðan er verst, og úthverfavæðingin hefur verið hræðilegust, þá flykkist fátæka fólkið þangað og ýtist stöðugt utar og utar. Á mörgum stöðum er svo komið að bifreiðarkostnaður er í fyrsta sæti yfir útgjöld heimilisins á eftir húsnæðiskostnaði. Þá er alveg spurning hver hin góða niðurstaða sé að lokum.

Við eigum alltaf að bera virðingu fyrir vali fólks. En ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að fólk er ekki alltaf að velja sér það að búa á þessum stöðum heldur getur verið fljótlegra að fá leyfi og komast af stað, það geta verið ódýrari lóðir sem ýta undir úthverfavæðingu. Og að lokum er það náttúrlega þessi merkilegi eiginleiki bílsins, sem allt of fáir tala um, sem er hreyfanleikinn sem gerir það að verkum að við getum leyft okkur að haga okkur eins óskynsamlega og við gerum.