150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:30]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Það er kannski erfitt að tala heildstætt um þessa samgönguáætlun án þess að enda með því að detta í smáháð og grín. Ég ætla að reyna að takmarka háðið við það sem er málefnalegt en grínið gæti orðið eitthvað meira. Ef maður horfir á stóru myndina þá nær samgönguáætlun, þá er ég að tala um bæði skemmri tíma og lengri tíma áætlunina, í grundvallaratriðum yfir fjórar tegundir samgangna. Það eru akvegir fyrir bíla, flugvellir fyrir flugvélar, hafnir fyrir skip og síðan er einhvers staðar í neðanmálsgrein minnst á reiðhjól en kannski ekki mjög ítarlega.

Í hverjum þessara flokka er hægt að velja sér þrjá mismunandi valkosti. Fyrsti valkosturinn er framfarir. Annar valkosturinn er stöðnun og þriðji valkosturinn er afturfarir. Ég held að það sé sanngjarnt að segja að horft er fram á einhverjar, þó takmarkaðar, framfarir í hjólastígum. Það eru einhverjar framfarir í vegum, það er nokkurn veginn stöðnun í höfnum og það er afturför í flugvöllum.

Ég ætla að reyna að fara yfir þetta örlítið en ýtum hjólastígunum aðeins til hliðar. Ég held að það sé ágætt að byrja á vegunum. Opinbera matið er að það sé um 400 milljarða kr. uppsöfnuð viðhaldsþörf á vegum landsins. Þetta er til viðbótar við allar framkvæmdirnar sem hafa setið á hakanum í mörg ár og jafnvel marga áratugi. Þetta er til viðbótar við áætlanir sem fólk hefur gert af góðum hug og hafa aldrei komist til framkvæmda. Þetta er í raun það sem gerist þegar fólk ákveður að sinna ekki viðhaldi. Það er sanngjarnt að segja að með þessari samgönguáætlun sé verið að vinna örlítið upp þann halla, örlítið. Það að ekki skuli vera gefið meira í, sérstaklega í ljósi þess að við erum búin að horfa upp á heimsfaraldur sem hefur leitt af sér efnahagshrun af stærðargráðu sem við í raun þekkjum ekki enn, er kannski einhvers konar — ég veit ekki einu sinni hvað maður á að kalla það. Þetta er alla vega ekki framsýni af neinni stærðargráðu sem er þess virði að tala um.

Það eru ótal staðir þar sem við gætum spýtt í lófana. Það er klassískur keynesismi að segja að þegar lélegur gangur er í hagkerfinu, hver svo sem ástæðan er, eigi að leggja meira í opinberar framkvæmdir. Þetta eru ekki einu sinni neitt sérstaklega flókin fræði. Maður hefði haldið að viðbrögðin við heimsfaraldri væru einmitt að horfa á samgönguáætlun sem eina af mögulegum leiðum til þess að gera betur, ekki síst þegar við erum að tala um 400 milljarða kr. halla í uppbyggingu. Það er auðvitað eitthvað tekið á þeirri uppbyggingu og eitthvað af því er úti á landi og eitthvað í höfuðborginni. Það er kannski ágætt að nefna eitt af því jákvæða vegna þess að ég vil ekki bara vera neikvæði maðurinn, ég vil líka segja einhverja jákvæða hluti. Það er jákvætt að gengið sé út frá því að byggja upp borgarlínu. Við vitum alveg, þvert á frekar kjánalegar fullyrðingar hv. þingmanna Miðflokksins, að það er ekki einhver óþekkt stærð. Við vitum að rekstrarkostnaðurinn verður 9 milljarðar yfir ákveðið tímabil, það kemur fyrir einhvers staðar, og við vitum að ábatinn er 114,8 milljarðar á sama tímabili, ég held að ég fari rétt með tölurnar. Það er risaábati og er þannig séð ekki mikill kostnaður við að byggja upp svona stórt kerfi. Það er jákvætt að verið er að koma til móts við þetta, að vísu allt of lítið, allt of seint. En það hefur bara verið ástandið í pólitíkinni hér á landi ansi lengi að allt of lítið, allt of seint hefur verið það sem fólki er boðið upp á.

Þá kemur að því sem maður þarf kannski að hæðast örlítið að, það er þetta fyrirbæri með forgangsröðun. Alltaf þegar talað er um að við þurfum að fara að gera eitthvað og þurfum að spýta í lófana og byggja upp til framtíðar þá kemur einhver og segir: Já, það er rétt, en við þurfum að forgangsraða. Það er enginn ósammála því að við þurfum að forgangsraða. En hvers vegna ætli það sé að við þurfum einhvern veginn alltaf að forgangsraða þeim hlutum sem henta best pólitíkusum í tilteknum héruðum? Í staðinn fyrir að horfa á stóru myndina, reikna hvað hlutirnir kosta, hvar mesti ábatinn sé, skoða hvaða möguleikar eru á því að ná bættri heildarmynd í staðinn fyrir að henda niður göngum einhvers staðar, þar sem hefur kannski ekki verið gríðarleg eftirspurn eftir þeim, vegna þess að það lítur vel út fyrir einhverja. Ég er ekki að gagnrýna nein tiltekin göng núna þó að ég sjái svipinn. Nei. Álit mitt á jarðgöngum er almennt að við eigum bara að reyna að vinna þau jafnt og þétt og helst miklu hraðar. Það er einmitt dæmi um þokkalega mannaflsfrek verkefni sem skila ágætisárangri.

Við verðum að gera þetta heildstætt. Þegar ég les í gegnum þessa samgönguáætlun er upplifun mín ekki sú að þetta sé niðurstaða sem komi út úr ótrúlega djúpstæðri greiningu á gögnum. Mér finnst þetta eiginlega líta frekar út eins og óskalisti fólks sem hafði kannski meira pólitískt umboð en tíma til að skoða gögnin. Það er svo sem hægt að tala um gögnin í öðru samhengi.

Mig langar að tala um flugið. Það er málaflokkur sem er mér svolítið kær. Góðu fréttirnar eru að það er verið að innleiða svokallað EGNOS-kerfi sem er til þess gert að auðvelda flugvélum að lenda þó svo að skyggni sé slæmt og ýmislegt þess háttar. Það er hið besta mál. Að vísu var talað um þetta fyrir hrun og það var meira að segja sett á ís af ráðherra eftir hrunið. Þegar maður les samgönguáætlun er þetta kerfi í undirbúningi en ef maður talar við Evrópsku geimferðastofnunina hafa þeir ekki heyrt neitt í okkur. Ég veit ekki alveg hver skýringin er á því. Kannski er ég að spyrja rangt fólk þar innan húss en eitthvað hljótum við að geta meira sagt um þetta tiltekna verkefni en fimm línur í samgönguáætlun. Það er t.d. vitað að fótspor gervihnattanna sem eru á bak við þetta kerfi ná ekki nema að takmörkuðu leyti yfir Ísland. Það er heilmikil vinna að breyta því. Á sama tíma er afskaplega takmarkaður ratsjárbúnaður á Íslandi. Hér í samgönguáætlun er talað um að ratsjárbúnaður Akureyrarflugvallar sé kominn til ára sinna. Það er vissulega rétt. Það kostar 1.000 milljónir að endurnýja hann en það er ekki inni í samgönguáætlun. Maður spyr hversu lengi búnaður af þessu tagi þurfi að vera í gjörgæslu vegna þess að viðhaldi er ábótavant áður en einhver kemst að þeirri niðurstöðu að kannski væri ágætt að setja það inn í samgönguáætlun. Hvað þarf til? Óhapp sem hægt var að forðast eða þurfum við að horfa upp á óhapp? Ég veit ekki. Ég myndi alla vega gjarnan vilja að þetta væri eitt af því sem væri lagað.

Það er áhugavert að í samgönguáætlun er talað um 13 flugvelli sem tilheyra hinu svokallaða grunnneti flugs. Það er áhugaverð staðreynd að þeir séu 13 í ljósi þess að ef maður skoðar flugmálahandbók Íslands, sem flugmenn þekkja sem AIP, eru þeir 14 talsins en ekki 13. Þetta er eiginlega enn áhugaverðara þegar maður skoðar grunnnet vega. Í grunnneti vega samkvæmt þessari áætlun er m.a. talinn upp vegur — nú er ég búinn að týna þessu, ég ætla að leyfa mér að finna þetta vegna þess að mér finnst þetta raunverulega fyndið. Það er náttúrlega kjánalegt að týna þessu en þetta eru nokkuð löng skjöl og meira að segja tvö vegna þess að ekki er hægt að vera með eina gagnslausa 15 ára áætlun heldur verða áætlanirnar að vera tvær. Í grunnneti vega er vegur númer 749 talinn upp. Það er flugvallarvegur á Sauðárkróki. En þegar maður horfir á lista yfir flugvelli í grunnneti annars vegar og flugvalla í flugmálahandbókinni hins vegar stendur flugvöllurinn á Sauðárkróki út af. Til hvers erum við með veg að flugvellinum á Sauðárkróki í grunnneti vega ef við erum ekki með flugvöllinn á Sauðárkróki í grunnneti flugvalla? Er þetta ekki svolítið skrýtið? Ég bara skil þetta ekki.

Þessu til viðbótar þá eru ekki bara 14 flugvellir á Íslandi samkvæmt Isavia og 13 samkvæmt samgönguáætlun heldur eru 40 lendingarstaðir samkvæmt Isavia, ef maður skoðar kafla AD 4 í flugmálahandbókinni. Munurinn er aðallega sá að ekki er áætlunarflug á þessa lendingarstaði en þeir gegna náttúrlega mikilvægu hlutverki fyrir samfélögin þar sem þeir eru, bæði fyrir einkaflug og í einhverjum tilfellum það sem kalla mætti útsýnisflug með túrista og annað í þeim dúr. Megnið af þessum 40 lendingarstöðum er í eigu ríkisins og á að falla undir viðhald hjá Isavia. Það hefur reyndar eitthvað verið um að þeir hafi verið teknir í fóstur vegna þess að viðhaldi yrði annars ekki sinnt. Ég myndi t.d. ekki endilega mæla með því að nota sumar af þessum flugbrautum. Flugvöllurinn á Rifi t.d. var orðinn ansi upprifinn og ansi mikið af lausamöl þar þrátt fyrir að hann sé skráður sem malbikaður flugvöllur, það er reyndar fyrir ári.

Viðhaldinu er sinnt að einhverju leyti og ég veit að þetta er náttúrlega enn eitt dæmið um vanfjármagnað verkefni hjá ríkinu. Fyrir utan það virðist vera mjög skrýtið hvernig fyrirkomulagi á málum og peningastjórn milli samgönguráðuneytisins annars vegar og Isavia hins vegar er háttað. Það væri eðlilegt að horfa á það í stóra samhenginu. En við gerum það ekki á meðan það vantar einn af þessum 14 flugvöllum og 40 lendingarstaði til viðbótar inn í samgönguáætlun vegna þess að þá erum við eingöngu að horfa upp á það að viðhaldi verði ekki sinnt og að ekki sé búist við því að þetta séu samgönguinnviðir fyrir þjóðina. Þetta þýðir að við megum búast við því að afturför verði í flugmálum Íslendinga á næstu 15 árum.

Þá þarf maður aðeins að lesa í stöðu mála á heimsvísu. Flug á heimsvísu er ekki beint að eiga afskaplega gott ár. Það koma vandamál upp sem tengjast því að flugrekstur er allt of dýr. Það er allt of mikið af slysum, sem auðvitað er verið að reyna að vinna á að hluta til með því að bæta brautir og bæta flugvelli. En ástæðan er líka bara sú að þetta er dýrt.

Ein leið til að gera þetta ódýrara, og ef maður gerir smákönnun þá sést að nokkrir tugir fyrirtækja eru að skoða það mál núna, er rafvæðing flugs. Þar gætu Íslendingar staðið framarlega ef við kærðum okkur um það. En það virðist ekki vera, hvort sem um er að kenna skorti á vilja eða fjármagni eða hvað. En það er áhugavert að þegar við horfum á þær tegundir véla sem er verið að þróa hjá þessum 10–20 fyrirtækjum sem eru komin í þennan geira, að það er allt saman hugsað til þess að stytta tíma í samgöngum milli bæja sem eru tiltölulega nálægt hver öðrum. Ég get alveg ímyndað mér að í framtíðinni, innan næstu 15 ára, verði samgöngur með flugi milli t.d. Ísafjarðar og Bíldudals eða milli Sauðárkróks og Akureyrar, eða þess vegna Vestmannaeyja og Hafnar, raunhæfar ef við förum að haga innviðunum á þann hátt. Þær eru ekki raunhæfar í dag að staðaldri vegna þess að kostnaðurinn er of mikill, flækjustigið er of hátt o.s.frv., og að hluta til vegna þess að viðhaldið er ekki fullnægjandi. En það er til mikils að vinna ef við förum að horfa á þetta í stóra samhenginu.

Munum að Ísland er eitt fárra Evrópuríkja sem ekki er með lestarsamgöngur. Ég er ekki alveg að sjá það breytast. Sjálfkeyrandi bílar munu fylla í það skarð að töluverðu leyti. En það er tvennt sem lestir geta gert sem er eftirsóknarvert: Eitt er að bera fjölda fólks milli staða með skilvirkari hætti en bílar og hitt er að fara hratt. Bílar munu ekki fara svo hratt, kannski eitthvað hraðar þegar heilu hraðbrautirnar eru orðnar sjálfvirknivæddar, en flugið verður alltaf betri kostur fyrir fólk hér á norðurslóðum þegar maður horfir til þess að lestarteinar eiga til að þenjast út og dragast saman í ísingu og kulda, svo að ekki sé talað um að snjór hefur afskaplega slæm áhrif á það hversu vel lestir og annað virka.

Við sem þjóð höfum frá upphafi — það eru 100 ár síðan flugsamgöngur hófust á Íslandi, 101 reyndar í ár — verið mjög framarlega í flugi mjög lengi. En við erum einhvern veginn alltaf að sólunda tækifærum annars vegar með því að huga ekki að innviðunum á réttan hátt, með því að vera ekki nógu dugleg að nýta okkur tækifærin eins og með rafflugið núna og að hluta til með því að sýna þessu ekki skilning.

Ég ætla að kalla þetta gott, þessa örlitlu samantekt. Ég veit ekki hvort ég hafi fært nógu sannfærandi rök fyrir máli mínu. Ég sé að einhverjir hafa beðið um andsvar þannig að vonandi verður hægt að leiðrétta það. En kjarninn í gagnrýni minni á samgönguáætlun er að hún er einungis að vinna upp langan hala í vegakerfinu, við erum að dragast aftur úr í flugkerfinu. Það er aðeins í hafnarkerfinu sem við virðumst standa í stað. Að vísu verð ég að viðurkenna að ég segi það nær eingöngu vegna þess að ég hef ekki mjög djúpstæða þekkingu á höfnum þannig að kannski erum við að dragast aftur úr þar líka. Ég veit ekki. Hjólastígarnir eru aðeins að batna, svo maður endi á einhverju jákvæðu, og vonandi batna þeir töluvert meira.