150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:02]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið sem var að mörgu leyti mjög upplýsandi. Mig langar þó að varpa fram spurningu: Ef hv. þingmaður mætti ráða og hefði allan heimsins — eða alla vega einhvern pening [Hlátur í þingsal]. og fengi að ráða, hvernig myndi hv. þingmaður forgangsraða uppbyggingu flugvallanna?

Svo langaði mig að koma aftur inn á rafvæðingu flugsins þar sem ég er sammála hv. þingmanni, enda hef ég lagt fram þingmál, ásamt þingflokki Samfylkingarinnar, um rafvæðingu flugsins. Er ekki einmitt, eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni, framtíðin fólgin í að taka jafnvel aftur upp póstflugið af því að með rafvæðingunni verður ódýrara að fljúga? Flugvélarnar verða vissulega minni, alla vega til að byrja með, en þarna eru gríðarleg tækifæri til þess einmitt að þurfa ekki alltaf að fljúga (Forseti hringir.) til Reykjavíkur til að fara á milli staða. Ég væri t.d. alveg til í flug milli (Forseti hringir.) Ísafjarðar og Akureyrar.