150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:06]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála þessu. Ég held að með því að nefna göng áðan hafi ég kannski verið að beina athyglinni frá punktinum sem ég var að reyna að koma með, þeim að ríkið ber jú auðvitað ábyrgð á því að tryggja góðar samgöngur úti um allt land. En gagnrýni mín sneri að því að við höfum mjög lengi horft upp á að verkefni séu tekin fram fyrir forgangsröð sem sett hefur verið af hreinum pólitískum ástæðum, vegna þess að einhver vildi t.d. komast aftur inn á þing eftir næstu kosningar, svo að maður tali nú bara hreint út.

Stundum er ástæðan aðeins kaldlyndislegri en svo. Kannski er það vegna þess að stjórnarmeirihluta — ég er ekki endilega að tala um þennan stjórnarmeirihluta — er kannski eitthvað í nöp við tiltekna sveitarstjórn sem er kannski samsett úr einhverjum öðrum flokkum. Augljóslega er þetta algerlega „hýpóþetískt“ tilfelli, er það ekki? En það getur gert það að verkum að eitthvert heilt byggðarlag, svo að maður velji algerlega af handahófi, t.d. Reykjavíkurborg, sitji á hakanum í tvo áratugi af pólitískum ástæðum. Það er þetta sem ég er ekki sáttur við.

Ég lít svo á að allir borgarar landsins eigi rétt á góðum samgöngum og það felur í sér að ríkisvaldinu á að beita á sanngjarnan máta gagnvart þeim öllum. Stundum þýðir það kostnaðarsama jarðgangagerð í litlu samfélagi. Stundum þýðir það framfarir í samgöngum í stóru byggðarlagi sem eru töluvert ódýrari miðað við höfðatölu. (Forseti hringir.) En þetta skiptir allt máli og má ekki vera algerlega pólitískt (Forseti hringir.) hverju sinni.