150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:38]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi sérstaklega þetta með að auka aðkomu fulltrúa sveitarfélaganna að forgangsröðun verkefna í samgönguáætlun. Það tengist kannski því sem ég opnaði á og hv. þingmaðurinn nefnir líka sjálf — og ég held að sé því miður ein ástæða þess að fólk verður nánast afhuga umræðu um samgöngumálin — hve auðvelt er að ná þessari sundrung fram. Ég held að allt sem getur náð umræðunni upp úr þeim hjólförum að rífast um einstaka vegi, eins og hv. þingmaður nefndi, eða hve fljót við eru í skotgrafirnar, sé til bóta. Og ég nefndi það líka fyrr í kvöld hvað mér hefur fundist jákvætt við þá umræðu sem átt hefur sér stað í kvöld og fyrr í dag, þ.e. að okkur hefur einhvern veginn tekist að horfa á heildarmyndina og ræða málin í víðara samhengi.

Varðandi aukna aðkomu sveitarfélaganna vísa ég líka til þess sem mér finnst ágætt dæmi um vel heppnað samstarf. Það er samkomulag ríkisstjórnarinnar við sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um borgarlínuna. Ég geri mér grein fyrir að ekki eru allir í þessum sal heitir aðdáendur hennar. En ég myndi samt halda að hvar svo sem menn væru staddir varðandi það, hvort borgarlínan eigi rétt á sér eða ekki, sé þetta mjög góð aðferð við að ræða sig niður á lausn.