150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á nokkrum orðum hv. þingmanns um að markmið með lagasetningu væru alla jafna góð. Það væri óskandi, við getum kannski orðað það þannig. Það er alls ekki alltaf satt, sérstaklega þegar kemur að kvótakerfinu o.s.frv. Það hefur einmitt gerst í samgöngumálum í gegnum tíðina, eins og það hefur verið orðað hérna, að ýmis verkefni hafa verið toguð til og frá.

En aðallega langaði mig að ræða við hv. þingmann um þann hluta ræðunnar sem fjallaði um persónuvernd, það að rekja ökutæki einmitt með þessum veggjaldapælingum sem slíkum. Það er fjallað aðeins um það í áliti meiri hlutans. Vandamálið þar er einmitt að við erum að rekja ökutæki með núverandi tækni og það er hægt að gera miklu meira. Besta leiðin til þess að passa upp á persónuvernd er að búa ekki til gögn sem síðan er hægt að misnota. Ég skil það að nokkru leyti að það sé gott að setja upp umferðarvöktun með því markmiði að safna gögnum um það hvernig umferð flæðir, sem er þá gert tímabundið til að rannsaka hvernig ákveðin gatnamót virka o.s.frv., ég skil það alveg ágætlega. En gegnumgangandi veggjaldastöðvar og slíkt eru síðan allt annar handleggur. Ég spyr á þeim nótum: Er það í rauninni réttlætanlegt út frá ákveðinni áhættu varðandi persónuvernd, (Forseti hringir.) að fara lengra út í þessa tækni með veggjaldapælingar?