150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Píratar monta sig kannski aðeins af því að persónuverndarmálin séu orðin fyrirferðarmeiri í þessum þingsal og það er náttúrlega ESB dálítið að þakka líka vegna persónuverndartilskipunar þess. Þegar við vorum nýbúin að samþykkja persónuverndartilskipunina hérna mættu gestir fyrir nefnd og kvörtuðu undan því að geta ekki nýtt sér ákveðin gögn sem þeir höfðu til að hafa samband við brottfallsnemendur í skólum. Þeir vissu nákvæmlega hvaða nemendur þetta væru og þyrftu bara að fá leyfi til að hringja í þá til að geta komið í veg fyrir að þeir hættu í námi. Þá hugsar maður strax: Ef þið vitið hverjir þeir eru, eruð þið ekki að brjóta persónuverndarlöggjöfina? Þeir áttuðu sig allir á því að það var nákvæmlega málið, þeir höfðu nýtt sér gögnin sem voru til, til þess að fá upplýsingar sem þeir áttu ekki rétt á.

Upplýsingar um umferð er hægt að nýta á mjög fjölbreyttan hátt. Þar er tenging þó að reynt sé að fara í kringum það með því að búa til einkvæm númer fyrir hverja bifreið eftir að henni er ekið í gegnum ákveðið svæði, svo fer hún kannski á næsta svæði og fær annað einkvæmt númer sem er ekki endilega það sama en tengingin er samt alltaf hvaðan upprunalega einkvæma númerið kom. Ég er bara að reyna að segja að í þessu kerfi eru tengingar á milli persónu og ferðatilhögunar o.s.frv. og það er hægt að (Forseti hringir.) fara miklu, miklu lengra með það en við gerum núna. (Forseti hringir.) Ég er að reyna að koma einmitt inn á þann punkt að það er ákvörðun sem við þurfum að taka núna, ætlum við að fara í þá átt og safna þeim gögnum og búa þau (Forseti hringir.) til eða ekki?