150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:47]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður nefndi ESB í samhengi við persónuverndartilskipunina. Ég get ekki sleppt því að nefna að það er nú veruleikinn um lagasetningu að Evrópa eykur sannarlega gæði hennar hér oft og tíðum og það held ég að við getum ekki vanmetið. En þetta kemur kannski alltaf í sama stað niður. Hv. þingmaður er með tiltekið dæmi úr umferðinni um hvað sé hægt að rekja og allt er þetta gert í einhverjum tilgangi. Fyrsti punktur finnst mér eiga að vera: Er þörf á þessu? Svarið við því er oft já, það getur verið þörf á því. Er verðið fyrir upplýsingarnar í samfélagslegu tilliti of hátt? Svarið við því er líka stundum já og stundum er þetta matsatriði. En þá finnst mér samt alltaf standa eftir að ef við ætlum að svara því, ef við ætlum að fara í þessa gagnasöfnun, að við séum þá alveg skýr með það og lokum fyrir að upplýsingarnar séu nýttar í öðrum tilgangi en þeirra var aflað.

En að því sögðu, svo ég leyfi mér að vera dálítill kleyfhugi í þessari umræðu, þá er það nú þannig að tæknin hefur oft nýst okkur, t.d. í rannsóknum sakamála. Alvarleg sakamál hafa komið upp þar sem þetta hefur hjálpað til. En ég nefni það líka í því samhengi af því að hættan er sú, þegar þau dæmi koma upp, að það verði svo áríðandi að nýta upplýsingarnar að ef ekki er girt fyrir það fyrir fram sé veruleg hætta á því að við misstígum okkur. Ég held að svarið við þessu sé að leikreglurnar (Forseti hringir.) þurfi að vera algjörlega ljósar og skýrar og því þurfi að svara strax í upphafi hvort það sé yfirleitt réttlætanlegt að safna svona upplýsingum.