150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

verðtrygging.

[10:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Spurt er hvar þessi sjónarmið hafi komið fram. Vinnuhópar hafa verið að störfum þar sem menn vilja ganga úr skugga um að til staðar sé sameiginlegur skilningur á því hvernig framþróun einstakra verkefna er. Þegar rætt var um verðtrygginguna og það sem tengist samsetningu vísitölunnar kom það fram á fundi, sem ég hygg að hafi verið með ASÍ og fulltrúum einstakra stéttarfélaga innan ASÍ, að ekki væri áhersla á húsnæðisliðinn lengur. Þetta sagði ég opinberlega úr þessum ræðustól og ég kannast ekki við að nokkur hafi gert athugasemdir við það.

Spurt er hvort ég láti mér í léttu rúmi liggja að kjarasamningar fari í uppnám vegna verðtryggingarmála. Ég segi bara: Það er engin ástæða til þess að það verði þannig. Ég held að við höfum haft einhverja jákvæðustu þróun, bæði vaxta og verðbólgu, sem við höfum lengi búið við og er engin ástæða til þess að verðtryggingarmál verði eitthvert aðalatriði.

Ég hef lagt fyrir stjórnarflokkana, og það er komið í gegnum ríkisstjórn, frumvarp sem áður hefur birst hér á þinginu. Ég veit að það eru einhverjar athugasemdir við það, en þar er ég að fylgja eftir loforði um að þrengja að 40 ára jafngreiðslulánum, verðtryggðum með skilyrðum. Það er síðan alltaf álitamál hversu langt eigi að ganga í þessum skilyrðum. Að öðru leyti, varðandi kaupmáttarþróunina, verð ég að koma í síðara andsvar. En ég bendi sérstaklega á tekjusöguna þar sem hægt er að skoða þetta mjög vel.