150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

hugtakið mannhelgi.

627. mál
[11:21]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar áhugaverðu fyrirspurnir um mannhelgi. Ég fór auðvitað að skoða í hvaða lögum á málefnasviði mínu mannhelgi er að finna. Það er kannski eingöngu í einum lögum sérstaklega, þ.e. lögum um mannréttindasáttmála Evrópu, 5. gr., auk þess sem takmarkaðir hlutar mannhelgisbálks Jónsbókar eru enn í gildi. En hugtakið er einnig að finna í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og í þremur mannréttindasamningum sem Ísland er aðili að, þ.e. alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, alþjóðasamningi um afnám alls kynþáttamisréttis og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Réttarvernd mannhelgi endurspeglast einnig í ýmsum öðrum mannréttindasamningum þótt hugtakið komi ekki sérstaklega fyrir þar, eins og hv. þingmaður ræddi, til að mynda í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og í ýmsum lögum þar sem fjallað er um réttindi einstaklinga, svo sem í lögræðislögum, barnalögum og almennum hegningarlögum.

Mannhelgi er ekki sérstaklega skilgreind í lögum um mannréttindasáttmála Evrópu né í þeim alþjóðasamningum sem hún kemur fyrir í og ég hef nefnt hér. Þó er ekki að sjá að sérstakur vafi leiki á inntaki þess, hvort sem litið er til dóma Hæstaréttar, álita umboðsmanns Alþingis eða skrifa fræðimanna um mannréttindi. Hugtakið á sér langa sögu í íslensku lagamáli og vísar til friðhelgi einstaklingsins og þeirra persónulegu réttinda sem öllum manneskjum eru dýrmæt eins og hv. þingmaður kom inn á.

Kjarni hugtaksins endurspeglast m.a. í mannhelgisbálki Jónsbókar sem snerist um réttarvernd manna gagnvart ofbeldi og öðrum árásum á persónu þeirra. Í mannréttindasamningum vísar rétturinn til að njóta mannhelgi almennt til þess að njóta verndar ríkisins gegn ofbeldi og líkamlegum skaða, hvort sem það stafar frá opinberum starfsmönnum, hópi einstaklinga eða stofnun. Hugtakið hefur jafnframt verið talið ná til réttar einstaklings til að vera ekki frelsissviptur á grundvelli geðþóttaákvarðana og endurspeglast það t.d. í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu.

Þegar spurt er hvort hugtakið mætti koma skýrar fram í lögum á málefnasviði ráðuneytisins eða með öðrum hætti má líka færa rök fyrir því að festa ekki skilgreiningu þess í lagatexta af því að með því yrði hugtakið kannski full takmarkað og skilgreiningar eftir þörfum ólíkra lagabálka gætu slitið það úr samhengi við þá hugmynd sem býr að baki orðinu. Þar að auki er ekki auðsótt að skilgreina óáþreifanleg og matskennd hugtök á borð við mannhelgi í stuttu en jafnframt aðgengilegu máli. Þó er jafnframt mikilvægt að lögin endurspegli og standi vörð um sameiginleg grundvallargildi á borð við þau sem hugtakið tekur til og sömu sjónarmið eiga við um fjölmörg önnur hugtök sem finna má í lagasafninu án þess að þau séu skilgreind sérstaklega, til að mynda frelsi, sanngirni, einkalíf og almannahagsmunir.

Í ljósi þess að hvorki hefur leikið sérstakur vafi á inntaki hugtaksins mannhelgi né þeirra hugtaka sem ég taldi upp verður að telja æskilegra að það sé túlkað eftir aðstæðum hverju sinni í samræmi við þau gildi sem liggja því til grundvallar. Ég tek því undir að það er verið að ræða um óáþreifanlegt hugtak sem er margslungið að því leyti að þetta svið persónulegra réttinda á sér ýmsar víddir sem geta varðað ólík réttarsvið. Og líkt og ég hef nefnt hér áður er æskilegra að mínu mati að ákveðinn sveigjanleiki sé í túlkun ákvæðisins eftir aðstæðum hverju sinni, þó þannig að ávallt sé viðhaldið tengslum við þau óumdeildu gildi sem hafa endurspeglast í hugtakinu.