150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

uppbygging á friðlýstum svæðum.

788. mál
[12:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágætissvar við spurningu sem ég lagði fyrir hann og ég þakka einnig þingmönnum sem hafa tekið til máls undir þessum lið. Ég tel að þegar við ræðum um friðlýsingar verði að vera að baki þeim það afl að unnt sé að vernda svæðin og tryggja skaðlítinn aðgang ferðamanna. Sé það afl ekki fyrir hendi er uppbygging og gæsla oft betur komin í höndum landeigenda og eru mörg ágæt dæmi um metnaðarfulla og athyglisverða uppbyggingu á vegum eigenda svæða.

Frú forseti. Friðlýsing má ekki ganga út í öfgar, sérstaklega ef ekki er fyrir hendi vilji, geta eða áhugi á að byggja upp og tryggja viðkomandi svæði og tryggja aðgang ferðamanna og annarra að þeim. Með öðrum orðum: Svæðin mega ekki vera til skammar. Og það eru til dæmi um mjög mikið sleifarlag á einstaka svæðum á vegum hins opinbera. Við verðum að hafa þetta afl.

Þess vegna spyr ég um friðlýstu svæðin, að þetta gangi ekki út í öfgar, að menn fari ekki langt fram úr sér, friðlýsi allt sem þeir sjái og síðan sé því lítið eða ekkert fylgt eftir, sérstaklega þegar við horfum upp á þann gífurlega ferðamannastraum sem hefur verið hér til skamms tíma og mun væntanlega halda áfram. Þá er mjög mikilvægt að vernda landið og ég mæli fyrir samspili ríkis og einkaaðila í þeim efnum.