150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:02]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Þegar ég lauk máli mínu fyrr í kvöld var ég að fjalla um flug og hvernig þetta þyrfti allt saman að haldast í hendur. Það sem mig langaði að velta upp núna er í sambandi við samgönguáætlun og þá áfangastaði sem við vitum að skipta máli. Það skiptir máli að við náum að sjá til þess að það séu jöfn tækifæri hvar sem er á landinu.

Ég er hér með umsögn Ferðamálastofu þar sem segir að við gerð nýrrar samgönguáætlunar, með leyfi forseta, „verði horft til áfangastaðaáætlana sem unnar hafa verið fyrir hvert og eitt landsvæði í samvinnu við markaðsstofur landshlutanna sem fara með verkefnisstjórn áætlanagerðar á sínum svæðum“.

Það er einmitt þetta sem ég held að skipti alveg gríðarlega miklu máli þegar verið er að ræða fyrir hvað er þörf hverju sinni á hverjum stað og hvað sé best. Þegar ég nefndi flugið fyrr í kvöld þá fer maður óneitanlega að hugsa um að opna fleiri gáttir inn til landsins og það hangir þá gjarnan með því hvernig við getum dreift ferðamönnum um landið. En það er ekki bara það heldur hafa auðvitað flugvellirnir hringinn í kringum landið öryggishlutverk. Það verður að fagna því að núna eru uppi áætlanir, í langtímaáætluninni, að koma inn svokölluðum EGNOS-gervihnattaleiðréttingartækjum. Slík leiðsagnartæki eru komin fyrir Húsavíkurflugvöll en ekkert enn þá á Akureyri.

Það er líka annað sem hægt er að ræða töluvert og það er öryggishlutverk samgönguáætlunar, og þá ekki aðeins í lofti heldur einmitt á vegum landsins. Það er svokölluð vetrarþjónusta sem hefur setið hvað mest á hakanum. Það er t.d. leið sem við höfum barist mjög mikið fyrir í Norðausturkjördæmi, uppbygging á Dettifossvegi, og það er ekki bara til þess að fá fleiri ferðamenn inn á svæðið heldur til að opna fleiri leiðir vegna þess að slysin gera ekki boð á undan sér. Þau verða ekki aðeins á malbikuðum fínum vegum og þau verða sérstaklega yfir vetrartímann þegar oft er erfitt að fara um og mikil ófærð.

Það er líka mikilvægt að Vegagerðin sem metur svona áhættu fari í samvinnu við þessi sömu landshlutasamtök og ég minntist á í byrjun. Þegar við ræðum það erum við jafnvel farin að tala um strætó á landsbyggðinni sem þarf líka að geta ekið um örugglega þannig að fólk fáist til þess að fara með strætó.

Ég hjó eftir því í einni umsögn frá SSME þar sem segir að strætó sem ekur þjóðveginn í átt að Ólafsfirði og Siglufirði, fram hjá afleggjaranum til Hríseyjar þar sem er ferjubryggja, keyri ekki niður afleggjarann heldur skilji fólkið eftir. Ég man ekki eftir því að hafa séð nokkurs konar biðstöð þar eða einhvers konar skjól fyrir fólk. Enn og aftur: Vonandi er fólk með puttann á púlsinum og hlustar eftir því sem heimamenn segja hverju sinni.