150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:13]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég var þar kominn síðast að ræða um almenningssamgöngur í útlendum borgum og minntist á Álaborg sem er borg af svipaðri stærð og með svipaðan íbúafjölda og Reykjavík. Þar veltu menn því fyrir sér fyrir nokkrum árum, og veltu því fyrir sér í nokkur ár, að setja upp léttlestakerfi til þess að bæta almenningssamgöngur en ákváðu að hætta við vegna þess að menn sögðu: Þetta er einfaldlega allt of dýrt, við höfum ekki efni á þessu og þetta mun ekki skila því sem við erum að leita að. Í Álaborg eru líklega tvö háskólasvæði og þó að það sé útúrdúr eru Álaborgarar einmitt núna, þetta eru skynsamir menn, að byggja þriðja sjúkrahúsið í Álaborg og það er ekki byggt í miðbænum. Það er byggt úti í háskólahverfinu en Danir byrja ekki á því að byggja sjúkrahúsið, þeir byrja á því að byggja veginn að sjúkrahúsinu. Sjúklingarnir eiga ekki að koma þangað með borgarlínu, hvorki veikir né í neyðarakstri. Í Álaborg er öndvegis strætisvagnakerfi. Tíðnin er mjög góð en þarna er þó nokkurt landflæmi vegna þess að þeir þurfa að fara norður fyrir Limafjörð, norður í Sundby, út á flugvöll sem þar er og þeir þurfa að sjá um strætisvagn alveg norður til Frederikshavn og norður á Skagen og suður að Árhúsum í hina áttina. Þetta er sem sagt mjög víðfeðmt en þeir eru samt með alveg öndvegis kerfi sem er einfalt, þrí- eða fjórþætt að mestu, og þar eru línur lagðar þannig að maður þarf yfirleitt ekki að bíða eftir strætisvagni í meira en þrjár til fimm mínútur, þannig er tíðnin þar.

Þetta er svolítið öðruvísi hér heima. Ég bý þannig að fyrir utan gluggann minn er strætisvagnastöð og þar kemur strætisvagn fjórum sinnum á klukkutíma á háannatíma en tvisvar á klukkutíma utan háannatíma, þ.e. á hálftímafresti. Vagninn er oftast nær tómur eða með örfáum farþegum. Nú vill þannig til, þó að maður fari nú ekki oft í bæinn til að létta sér upp, að ef maður vill fara í bæinn og aka niður í bæ í besta lúxus sem hugsast, þá labbar maður út á strætóstoppistöð, sem er rétt fyrir utan húsið, tekur strætó niður í miðborg Reykjavíkur og oft eru bara tveir í vagninum. Maður keyrir þarna í 12 metra löngum eðalvagni, gulum, 20 tonn, 600 hestöfl fyrir tvær manneskjur. Það er vel í lagt, ekki satt, herra forseti?

Herra forseti. Kannski er þetta það sem þarf að gera núna, laga aðeins tíðnina, auðvelda og einfalda kerfið sem er í gangi í Reykjavík áður en við tökum 50 milljarða í verkefnið, reyndar úr ríkissjóði því að Sjálfstæðisflokkurinn er svo rausnarlegur að vilja vera aðalstuðningsaðili verkefnisins eins og það heitir núna og er þess vegna albúinn að taka 50 milljarða og setja þá við opinn glugga og sjá hvert þeir fara vegna þess að enginn veit í hvað þeir eiga að fara. Nú er búið að setja upp enn eina skrautsýninguna, skilst mér, úti í Ráðhúsi. Það gæti kannski verið skynsamlegt að fara og berja dýrðina augum, kannski eru þeir búnir að taka lestarteinana sem voru á auglýsingaskiltum fyrir síðustu kosningar, þar djarfaði fyrir lestarteinum. Nú er kannski búið að taka þá til baka og setja upp eitthvað annað sem er söluvænlegra í dag. En allt byggist þetta á því, herra forseti, að blekkja. Hægt er að blekkja sumt fólk í einhvern tíma en það er ekki hægt að blekkja alla allan tímann, var sagt einu sinni. Það á við um þetta mál vegna þess að þetta mál hefur í sjálfu sér enga kynningu hlotið, ekki nokkra, ekki nema að það hafa borist einhverjir glanspappírar og svokallaðar sviðsmyndir þar sem sól skín í heiði og djarfar fyrir lestarteinum. Það er ekki viðhlítandi kynning á þessu stórmáli, herra forseti. Það þarf að gera miklu meira og kannski er hér núna, í þessari umræðu, að djarfa til eins og í 2. umr. sem við áttum í fyrravor. Þá komu fram upplýsingar í málinu sem höfðu ekki sést áður og kannski er það bara þannig, herra forseti, að ef við fáum tíma til að fara enn betur yfir þetta mál komi margt fram sem ekki hefur birst áður. Ég er búinn með tímann minn og verð að biðja herra forseta að setja mig aftur á mælendaskrá því ég er hvergi búinn.