150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að grípa niður í nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Þar er að einhverju leyti fjallað um þennan samgöngusáttmála, sem oft er vitnað í í þessum umræðum, og nefndir ýmsir þættir sem þurfi að klára o.s.frv. Hér er talað eins og þetta hangi allt saman með einhverjum hætti og eflaust eru þetta allt saman skyld mál sem hér eru á ferðinni. En það er alveg klárt að borgarlínuverkefnið tekur það langan tíma að það þarf ekki allt að samþykkjast í hvelli. Það má vinna betur í því sem þarf að vinna betur í.

Það sem ég rek augun í, hæstv. forseti, er setning sem hljóðar svo í nefndaráliti meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Enn fremur er mikilvægt að vegalög séu skýr um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga við samgönguframkvæmdir í þéttbýli þannig að kostnaðarskipting framkvæmda sem falla undir sáttmálann sé ljós samkvæmt lögunum. Hvetur nefndin til þess að lögin verði yfirfarin með tilliti til þessa.“

Það að meiri hlutinn skuli setja þessa setningu í nefndarálit sitt fær mig til að velta fyrir mér hvort það sé ekki verið að byrja á öfugum enda á máli þessu að flestu leyti. Þarna kemur í raun fram að vegalög séu ekki skýr varðandi verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga um samgönguframkvæmdir í þéttbýli. Það er ekki skýrt hver hluturinn milli ríkis og sveitarfélaga er og kostnaðarskiptingin þar af leiðandi ekki skýr, enda stendur hér að nauðsynlegt sé að kostnaðarskipting framkvæmda sem falla undir sáttmálann sé ljós samkvæmt lögunum.

Þá veltir maður fyrir sér: Hvernig dettur mönnum í hug, ef þetta er allt óljóst, að fara fram með þau mál sem hér eru til umfjöllunar? Ef það er óljóst í samgöngusáttmálanum, sem við höfum reyndar bent á, hver heildarkostnaður og ábyrgð einstakra aðila er í borgarlínuverkefninu veltir maður fyrir sér hvernig mönnum dettur í hug að segja það í nefndaráliti að þetta sé allt óljóst en vilja samt samþykkja það í hinu málinu, eða í samgöngusáttmálamálinu. Mér finnst það ekki mjög ábyrgt, hæstv. forseti. Mér finnst ekki mjög ábyrgt af meiri hlutanum að stilla hlutunum upp með þessum hætti.

Það er annað í þessum kafla sem ég kem inn á síðar. En nefndin hvetur sérstaklega til þess að lögin verði yfirfarin með tilliti til þessa, þ.e. að skýrt sé hver kostnaðarskiptingin milli ríkis og sveitarfélaga er. Byrjum á því, fáum á hreint hvort ríkið eigi að borga 50% eða 30% eða hvað eina sem kemur út úr þessari endurskoðun á lögunum. Það er a.m.k. staðfest hér að það er óljóst. Það liggur ekki fyrir hver hlutur hvers er í þessari framkvæmd. Þetta er vitanlega ekkert annað en opinn tékki. Það er búið að opna baukinn, ríkissjóð, sem er ábyrgðarhluti, og viðurkenna það í raun hér, á bls. 17 í nefndaráliti meiri hlutans, að við ætlum bara að borga þetta, sama hvað það kostar, sama hver kostnaðarskiptingin verður. Svo munu menn eflaust koma hingað og segja að alls konar fyrirvarar séu á því að Alþingi samþykki og eitthvað svoleiðis. Er þá ekki rétt að herða aðeins á þeim fyrirvörum ef þeir eru til staðar í ljósi þess að menn eru búnir að viðurkenna að það þurfi að endurskoða lögin? Hvernig væri að hraða endurskoðun á lögunum núna í sumar t.d., setja í gang að þau gætu verið tilbúin næsta haust? Menn gætu þá farið í málið út frá þeim forsendum, haft það svart á hvítu hvernig skiptingin á að vera samkvæmt nýjum lögum sem er búið að yfirfara og meiri hlutinn leggur til. Mér finnst mjög sérstakt að nálgast málið með þessum hætti og ekki mjög ábyrgt, svo að það sé nú sagt.

Mér finnst líka sérstakt, ef maður horfir á sveitarstjórnirnar sem er reyndar öllum nema höfuðborginni stýrt af Sjálfstæðismönnum, sem hafa látið borgarstjóra leiða sig í þessa furðulegu vegferð, að menn skuli ekki setjast niður og segja: Bíddu, við verðum að fá þessa skiptingu á hreint áður en við semjum og förum í að klára verkefnið. Við verðum að vita hvað við eigum að leggja á okkar sveitarsjóði. Það virðist ekki vera áhyggjuefni hjá þessum aðilum sem er mjög sérstakt.