150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:01]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að leiðrétta mig frá því í ræðu minni áðan. Ég sagði að það væru 8% sem notuðu strætó á höfuðborgarsvæðinu en það eru ekki nema 4%, svo að því sé haldið til haga. Og til að setja þetta í samhengi er talað um að 40% íbúa væri æskilegt hlutfall ef strætóferðir eigi að standa undir sér eða borga sig. Til að halda öllu til haga þá erum við að ræða hér þingsályktunartillögur til samgönguáætlunar, annars vegar til fimm ára og síðan 15 ára langtímaáætlun.

Þegar fólk velur sér búsetu skipta ótal þættir máli og mikilvægustu þættirnir eru án efa aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu en samkvæmt skilgreiningu er sú grunnþjónusta aðallega lögbundin lágmarksþjónusta sem verður ekki skert án lagabreytinga og í því sambandi skipta samgöngur lykilmáli þar sem þær snúast um öryggi íbúa hvar sem þeir kjósa að búa.

Við þingmenn Miðflokksins lögðum fram þingsályktunartillögu um að Alexandersflugvöllur yrði settur sem varaflugvöllur. Eins og ég sé þetta þá snýst sú þingsályktunartillaga fyrst og fremst um öryggissjónarmið. Það hefur sýnt sig að það gæti verið gott að hafa einn varaflugvöll enn, þ.e. flugvöll sem uppfyllir ákveðin skilyrði. Í dag er völlurinn ekki byggður upp sem varaflugvöllur en ég er nokkuð viss um að það hljóti að styrkja öryggishlutverkið ef hann væri settur í það stand sem þarf svo að hann uppfylli þau skilyrði. Það má líka segja að landfræðilega liggi völlurinn afar vel.

Annar flugvöllur sem skiptir máli er Norðfjarðarflugvöllur en hann var tekinn í gegn, ef svo má að orði komast, og vígður árið 2017 eða fyrir um þremur árum. Klæðning var lögð á brautina og flughlaðið gert upp eða sett niður. Brautin er 1.000 m löng og það að Norðfjarðarflugvöllur sé nú kominn í lag skiptir Austfirðinga mjög miklu máli. Það má segja að Davíð hafi unnið Golíat þar sem það getur verið mjög erfitt að fá umbætur á minni flugvöllum í landinu. Það tókst með gríðarlegu átaki heimamanna í samvinnu við ríkið og völlurinn skiptir máli fyrir Austfirðinga, eins og ég sagði áðan. Hann er fyrst og fremst hugsaður sem öryggis- og sjúkraflugvöllur. Umdæmissjúkrahús Austurlands er í Neskaupstað og það er mikilvægt að flugvöllur sé í nágrenni þess þegar flytja þarf sjúklinga með flugi. Áður var Norðfjarðarflugvöllur malarvöllur og slíkir vellir þykja alls ekki heppilegir fyrir þær sjúkraflugvélar sem notaðar eru núna og það er einkum vegna steinkasts. Þá var völlurinn oft ónothæfur drjúgan hluta árs vegna aurbleytu þannig að þarna vann Davíð svo sannarlega Golíat, eins og ég sagði. Auðvitað kostaði þetta átak peninga en kostnaður vegna framkvæmda við flugbrautina nam um 150 millj. kr. Ríkið greiddi um helming kostnaðar við hana en Fjarðabyggð, Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað og Síldarvinnslan hinn helminginn. Það voru síðan Samvinnufélag útgerðarmanna, verktakafyrirtækið Héraðsverk og sveitarfélagið sem stóðu straum af kostnaði við gerð flughlaðsins.

Það má með sanni segja að samgöngur skipti öllu máli þegar við erum að ræða grunnþjónustu, þar sem við tölum um lögbundna grunnþjónustu og aðgengi að henni, eins og ég byrjaði þessa ræðu á. Það er mjög mikilvægt að við sjáum til þess að flugvellirnir verði þetta þéttriðna net þannig að við getum staðið við okkar alls staðar um land.