150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:11]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Þær samgönguáætlanir sem liggja fyrir eru búnar að vera nokkuð lengi í meðförum þingsins. Það er nú svo merkilegt að við síðari umræðu núna um þær tvær hefur hæstv. samgönguráðherra ekki séð sér fært að vera hér. Ekki það að ég sé viss um að það hefði verið neitt sérstakt gagn að því, en hann hefur ekki séð sér það fært. Það er aftur á móti annað sem ég hef velt svolítið fyrir mér. Það endar með því á einhverjum tímapunkti að það þarf væntanlega að afgreiða þessar tvær áætlanir og greiða þeim atkvæði og koma þeim frá þinginu. En það sem ég hef velt fyrir mér varðandi það er að Sjálfstæðisflokkurinn talar ekki einum rómi við þessa umræðu. Hér fyrr í dag hélt hv. þm. Sigríður Á. Andersen hreint prýðilega ræðu þar sem hún dró einmitt fram vankantana á þeim fyrirætlunum sem hér eru uppi um almenningssamgöngur í Reykjavík. Og það var kannski þess vegna sem ég sá svolítið eftir því að forseti, sá sem nú situr og er einn fremsti sérfræðingur Sjálfstæðisflokksins í almenningssamgöngum, gæti ekki sökum þess að hún situr á forsetastóli tekið þátt í umræðunni með okkur í kvöld. Það hefði verið mjög fróðlegt að heyra álit hennar á ræðu kollega síns, hv. þm. Sigríðar Á. Andersen.

Það hefði reyndar verið mjög fróðlegt að heyra frá fleiri Sjálfstæðismönnum um hvernig andinn er í þingflokknum gagnvart þessum tveimur áætlunum. Og auðvitað getur það ekki orðið hnökralaust að afgreiða þessi stóru mál — þegar ég segi stóru meina ég sérstaklega peningahliðina — ef stærsti stjórnarflokkurinn er ekki einhuga um þessa framkvæmd. Ekki það að ég sé hissa á því vegna þess að málið er þannig vaxið að það er ekkert undarlegt að menn hafi fleiri en eina skoðun á því.

Ég hef heyrt, frú forseti, frá einhverjum í þessu húsi að það sé eitthvað undarlegt við það að vera einn með einhverja ákveðna skoðun vegna þess að við Miðflokksmenn höfum farið nokkuð fram í þessu máli. Það heyrast raddir sem segja að það sé eitthvað önugt eða öðruvísi eða afbrigðilegt við það að við skulum sitja hér kannski einir, náttúrlega með Sigríði Á. Andersen, á þessari skoðun. En ég vil halda því fram að það sé ekkert vont eða brogað við það að menn standi einir á sannfæringu sinni. Ég vil minnast á í þessu sambandi að það þurfti bara eitt barn til þess að benda á að keisarinn í sögu H. C. Andersens var nakinn, bara eitt barn sem þurfti til þá. Og svo ég fari aðeins aftar í söguna þá var rödd hrópandans í eyðimörkinni bara einn maður, það var Jóhannes skírari. Hann kom fram með fregnir af því að frelsari vor kæmi í heiminn. Það er því ekkert að því að vera einn á einhverri skoðun, hafa sannfæringu fyrir einhverju.

Við Miðflokksmenn höfðum fyrir nokkru uppi orðræðu um mál sem við höfðum sérstöðu í og vorum einir á móti, en nú ári seinna er farið að glitta í það hvers vegna við höfðum rétt fyrir okkur. Ég átti ekki alveg von á því sjálfur að það myndi gerast svona hratt, en það er að gerast núna. Ég hef þá trú að í þessu máli, og sérstaklega í borgarlínuendanum á því, muni koma í ljós að (Forseti hringir.) það var ekkert rangt við það að vera einn og standa á sannfæringu sinni gagnvart þessum fjáraustri (Forseti hringir.) að þessu sinni. En nú er tími minn búinn rétt einu sinni og ég bið hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.