150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég sá áðan á vefmiðlinum Miðjunni litla frétt þar sem stóð: „Miðflokksmenn í málþófi um samgönguáætlun Sigurðar Inga Jóhannssonar.“ Þótt Miðjan sé hvort tveggja ágætismiðill og hafi oft rétt fyrir sér eru þessar tvær fullyrðingar báðar rangar. Miðflokkurinn er ekki í málþófi heldur er hann að ræða hér samgönguáætlanir en þetta eru ekki samgönguáætlanir Sigurðar Inga Jóhannssonar vegna þess að hvort tveggja er að hans eigið fólk tók af honum ráðin og Alþingi einnig og afleiðingin af því eru þær tvær tillögur sem við erum að ræða hér nú.

Herra forseti. Ég hef einbeitt mér dálítið að því að ræða, komandi hér af þessu svæði, það sem þessu svæði hér mest viðkemur og það eru vissulega mörg atriði sem hægt er að fara yfir sem snúast mest um sem sagt höfuðborgarsvæðið og nágrenni þess.

Mig langar til að dvelja aðeins aftur við atriðið sem ég hóf máls á í dag og það er atriði sem vantar inn í báðar þessar ályktanir. Það er Sundabrautin. Eins og fram hefur komið og kom reyndar fram í ræðu minni í dag að búið er að skerða mjög möguleikana á því að koma Sundabrautinni fyrir vegna þess að búið er að ráðstafa landinu, þar sem landtakan hefði átt að koma, til fjárplógsmanna sem eru þar að byggja þéttar en maður hefur áður séð.

En það er annað, herra forseti, sem tengist Sundabrautinni óhjákvæmilega. Það er sú staðreynd að þarna inn frá höfum við Sundahöfn. Það var rætt nokkuð hér í síðustu atrennunni þar sem var verið að ræða Sundabrautina og þá voru menn að tala um tvær staðsetningar fyrir brýr. En ég er á því, herra forseti, að það sé ekki það sem við þurfum, önnur brúargerðin skerðir nýtingarmöguleika Sundahafnar sem væri afleitt skref fyrir þá höfn og fyrir þetta svæði í heild. Þannig að ég sé ekki betur, herra forseti, heldur en að menn þurfi nú að horfa á það með fullri alvöru að leggja hluta Sundabrautarinnar, þ.e. milli Sundabakka og upp í Grafarvog, í göngum. Ég held réttara að segja, herra forseti, að það sé í raun og veru eina leiðin sem er eftir núna.

Það sem flækir þá leið og reyndar allar þessar leiðir nokkuð eru þeir tilburðir borgarstjórnarmeirihlutans að þrengja að vegstæðinu í Grafarvogi nálægt Gufunesi. Það kveður svo rammt að þeirri þörf að í gær, 17. júní, voru menn að vinna í uppsteypu að hverfi sem er verið að byggja inn í vegstæðið, þ.e. veghelgunarsvæðið. Með því að gera það eru menn að ýta Sundabrautarvegstæðinu til suðurs eða austurs inn á þann stað þar sem búið er að vernda fjörur. Þannig að um leið og þarf að leggja Sundabrautina, þ.e. þennan anga hennar til norðurs að Kjalarnesi, lenda menn í því að þarna er komin fjara sem er búið að setja í verndarflokk góðu heilli.

Það á örugglega eftir að taka fleiri ár að vinna það mál um hvernig hægt er að leggja brautina, hvort hægt er að gera það á þessum stað og þá hvernig. Þetta á eftir að lenda í eilífum kærumálum. Ég sé að ég hef ekki meiri tíma, herra forseti, og bið um að ég verði settur aftur á mælendaskrá.