150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Ég sagði áðan í ræðu að ég ætlaði aðeins að fjalla meira um ákveðna hluti sem koma fram í nefndaráliti minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar, þar sem verið er að vísa í nefndarálit meiri hlutans. Þar er m.a. verið að fjalla um það að atbeina Alþingis þurfi eftir atvikum um ákveðna hluti í samgönguáætlun og fjárlögum á hverjum tíma eða hverju sinni til að hægt sé að ráðast í ákveðnar framkvæmdir. Þetta held ég að sé mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að þarna er vísað í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Þó að við gagnrýnum ákveðna hluti við samgöngusáttmálann, mörg okkar sem hér höfum tekið til máls, þá er alls ekki allt sem gagnrýnt er þar. Það á t.d. við um þann hluta samkomulagsins sem gerður var við sveitarfélögin sem snýr að uppbyggingu stofnbrauta á höfuðborgarsvæðinu. Það er mjög mikilvægt að í það verkefni verði ráðist sem allra fyrst og maður hefur aðeins áhyggjur af því að þegar búið er að negla þessa borgarlínu fasta, eins og plönin virðast vera, verði áherslan meiri á það en þessar stofnbrautir sem er svo mikilvægt að byggja upp.

Ég kom að því, líklega í fyrstu ræðu minni, hversu mikilvægt er að tryggja að flæði umferðar úr borginni geti gengið hratt fyrir sig. Við getum ekki gleymt því og verðum að átta okkur á því að við búum á eldfjallaeyju. Við búum við það að hér getur náttúran látið til sín taka, hvort sem það er með eldgosum eða jarðskjálftum eða öðru slíku. Við verðum að geta losað þéttbýlissvæðin býsna hratt ef á þarf að halda. Að sjálfsögðu vonumst við til að ekkert slíkt gerist en við þurfum hins vegar að hafa allan varann á, eins og við höfum séð þegar hamfarir sem fylgja Covid-faraldrinum hafa gengið yfir okkur.

Í áliti 2. minni hluta eru þessar stofnbrautir nefndar sérstaklega. Þar er líka nefnt mikilvægi þess að gera göngu- og hjólastíga með átaki og með átaki í umferðarstýringu. Það er líka mjög mikilvægt að þeir sem kjósa að ganga og hjóla — að það flæði sé einnig vel tryggt. Það er vitanlega, og maður mætti sjálfsagt gera meira af því sjálfur, mjög heilsusamlegt að hjóla þangað sem maður er að fara og mjög mikilvægt að það sé tekið inn í þessar framkvæmdir.

Það er hins vegar þessi þáttur er snýr að borgarlínu sem er óljós, ég tek undir það með 2. minni hluta. Það er ákveðinn rammi sem búið er að teikna upp en ramminn, eða það sem er inni í honum, er afar óljós. Það hefur ítrekað komið fram og kallar á að upplýst sé um rekstraráætlanir í sambandi við borgarlínu. Hvernig ætla þeir sem á þessu munu bera ábyrgð að reka þetta batterí? Það hefur komið fram að almenningssamgöngur standa ekki undir sér í dag og varla munu þær gera það með þessum miklu fjárfestingum. Ef það er ætlunin að ríkið taki að sér stórkostlegan rekstrarkostnað við almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu þarf að ræða það sérstaklega. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við yfirfærum þá hugsun sem er hjá meiri hluta nefndarinnar, þegar kemur að þeim fyrirvörum og þeirri umfjöllun sem þarf að eiga sér stað á Alþingi, yfir á hin málin sem eru svona óbeint tengd þeim samgönguáætlunum sem hér um ræðir.

Annar minni hluti telur upp ákveðna þætti sem hann gerir sérstakar athugasemdir við. Þar er talað um fjárfestingar, þokukenndar áætlanir, þá staðreynd að engar rekstraráætlanir liggja fyrir, eins og ég kom að áðan, og síðan eru það náttúrlega himinháar kostnaðartölur verkefnisins og binding fjármagns, svo að eitthvað sé nefnt af athugasemdunum. Allt þetta þarf vitanlega að liggja miklu skýrar fyrir. Það er svolítil „þetta reddast hugsun“ við þessa borgarlínu alla. Það er mjög sérstakt að ríkið og sér í lagi Sjálfstæðisflokkurinn skuli láta þvæla sér í þetta gæluverkefni borgarstjórnarinnar sem nú situr. Það er mjög sérstakt að menn skuli fara þá leið. Og með þessum óábyrga hætti, ég ætla að leyfa mér að segja það, sem endurspeglast í þeim gögnum sem við sjáum hér. Ég mun fara nánar yfir það síðar og óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.