150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[02:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til að óska forseta til hamingju með daginn. Það rann upp fyrir okkur að kominn er 19. júní, kvenréttindadagurinn, hátíðisdagur íslenskra kvenna og það er full ástæða til að óska hæstv. forseta og öðrum konum til hamingju með daginn. Það er mjög mikilvægt að við leitumst öll við að minnast þessa dags eins lengi og oft og við mögulega getum og vonandi verður þessa dags minnst víða um land á morgun því að konur eru búnar að berjast fyrir … (Gripið fram í: Í dag.) Fyrirgefðu? (Gripið fram í: Í dag.) Já í dag, fyrirgefðu. Ég er nú að meina þegar fer að birta meira. Við eigum að minnast þessa dags því að svona lagað gerist ekki af sjálfu sér, konur eru búnar að berjast fyrir réttindum sínum áratugum saman og hvað, það eru 105 ár í dag síðan fyrstu konurnar fengu kosningarrétt, sem við eigum að minnast. Það er mikilvægt, held ég, að við brýnum fyrir öllum að nota daginn í dag til þess að minnast þessara tímamóta. Ég verð að viðurkenna það, frú forseti, að mér brá aðeins þegar það rann upp fyrir okkur að þessi dagur væri runninn upp og við værum ekki búnir að fjalla um það hér. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)