150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[03:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Það sem mig langar að nefna hér, og ég var í vandræðum með að finna áðan, er á bls. 17 í nefndaráliti meiri hlutans. Þar er fjallað um tilgang samgöngusáttmálans, m.a. þann að flýta framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu. Þar er farið yfir það að til að unnt sé að hefja framkvæmdir samkvæmt honum þurfi Alþingi að staðfesta fjárframlag o.s.frv. Þetta er mjög mikilvægt og ég vil reyndar þakka meiri hlutanum fyrir að setja þetta inn með eins skýrum hætti og hér er gert, aðkomu Alþingis að þessu öllu saman. Ég hefði gjarnan viljað sjá þetta jafn fast orðað, og helst fastar vitanlega, í öðrum þeim málum sem við erum með á dagskrá þingsins er snerta samgöngumál og á ég þá við frumvarpið sem snertir samgöngusáttmálann. Það er mjög mikilvægt að tekinn sé af allur vafi. Þetta hef ég sagt hér áður.

Á sömu blaðsíðu segir, með leyfi forseta:

„Forsenda þess að framkvæmdir geti hafist og að framlag komi frá sveitarfélögunum til móts við ríkið er að gengið verði frá formlegum samningi milli fyrrgreinds félags og Vegagerðarinnar.“

Ég velti því fyrir mér hvort það samkomulag sem þarna er um að ræða, ég á bara eftir að skoða það betur, passar akkúrat inn í þessa röð sem er hér á málum, bæði í þinginu og í þessum samgöngusáttmála.

Síðan segir, með leyfi forseta, hér á bls. 17:

„Enn fremur er mikilvægt að vegalög séu skýr um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga við samgönguframkvæmdir í þéttbýli þannig að kostnaðarskipting framkvæmda sem falla undir sáttmálann sé ljós samkvæmt lögunum. Hvetur nefndin til þess að lögin verði yfirfarin með tilliti til þessa.“

Það má auðveldlega túlka þetta þannig að lögin séu ekki skýr í dag, að það sé eitthvað óljóst hvernig þessi kostnaðarskipting eigi að vera milli ríkis og sveitarfélaga. Sé það rétt túlkun finnst mér að verið sé að byrja á öfugum enda. Það er verið að samþykkja höfuðborgarsáttmálann, það sem snýr að honum og borgarlínu og öllu því í samgönguáætlun, og mögulega þessi samvinnuverkefni sem hér eru rædd, en mér finnst eins og verið sé að byrja á öfugum enda þegar sagt er að halda eigi áfram með þetta en samt sem áður þurfi að komast að því hvernig verkaskiptingin eigi að vera vegna þess að hún sé ekki skýr í lögum í dag. Hvað gerist ef verkaskiptingin þarna, þetta snýr að kostnaðarskiptingu framkvæmda, verður öðruvísi en lögin segja til um? Eða á aðlaga lögin að þeirri verkaskiptingu sem verður tekin upp?

Þessar vangaveltur fá mig til að velta því fyrir mér hvort verið sé að byrja á öfugum enda. Ég hefði viljað sjá að menn hefðu farið í þessa vinnu til að klára að skilgreina þetta áður en farið er í að festa ríkissjóð í þessu öllu eins og lagt er upp með hér. Þetta er ekki síst í ljósi þess að það eru, og hefur komið fram í mörgum ræðum, verulegir óvissuþættir uppi um endanlegan kostnað, skiptingu endanlegs kostnaðar, við framkvæmdina, hvernig farið verður með framúrkeyrslu og annað. Ég hef ekki séð það eða fengið það upp úr þeim sem styðja málið að það sé geirneglt með ákveðnum hætti heldur er þetta allt frekar opið. Þegar hlutir eru opnir, í raun skildir eftir ókláraðir, erum við auðvitað að bjóða upp á það að seinna meir verði farið í túlkanir og sagt að ríkissjóður þurfi að koma með meiri pening inn í þetta til að standa við samninginn, að ríkissjóður þurfi að taka á sig hluta af framúrkeyrslunni, að ríkissjóður þurfi að taka hluta af tapinu sem verður af rekstri á framkvæmdinni o.s.frv. Það er nefnilega allt sem bendir til þess, og ég sagði það hér fyrr í nótt eða í gær, ég man ekki hvort, að þetta verkefni mun fara fram úr áætlun. Það er ekkert sem bendir til annars vegna þess að reynslan af svona stórum framkvæmdum annars staðar frá og reyndar smærri framkvæmdum í Reykjavík, eins og þessu fræga braggamáli, svo að eitthvert dæmi sé tekið, er sú að framkvæmdir hneigjast til að fara fram úr áætlunum. Þess vegna er mjög mikilvægt að ramma þetta inn þannig að ríkissjóður standi ekki eftir með einhverjar túlkanir sem gera það að verkum að gengið verður á sjóði ríkisins og skattgreiðenda.