150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:28]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðari ræðu sína í þessum andsvörum. Talandi um ábyrgðarleysi þá vil ég benda þingmanninum á að samgönguáætlun sem er í gildi verður í gildi áfram ef svo skyldi þróast að þessi yrði ekki samþykkt. Ég hef sagt það hér í ræðum, og við fleiri, að þessi samgönguáætlun sé að stærstum hluta ágæt en það séu þarna atriði, eins og títt hefur verið talað um, sem eru ekki í lagi. Og talandi um það sem á eftir að samþykkja hér um opinbert hlutafélag út af samgöngumálum hér á Reykjavíkursvæðinu þá verður það að sjálfsögðu örugglega rætt eitthvað áfram.

En í sambandi við þær umræður sem urðu um orkupakka þrjú í fyrra þá lítum við í Miðflokknum þannig á að það sé mikið stórmál um sjálfstæði þjóðarinnar, yfirráðarétt yfir orkulindum og annað slíkt. Það var alveg þess virði að ræða það mál í þaula og væri hægt að tala um það lengi áfram. Einhvers staðar á leiðinni er annar orkupakki, sem er orkupakki fjögur, og við þurfum sennilega að ræða svolítið um hann í framtíðinni. Það var alltaf að koma eitthvað nýtt upp í þeirri umræðu og ræður voru aldrei endurfluttar, talandi um málþóf, í þeirri umræðu. Okkur var alltaf að berast nýtt og nýtt efni sem við gátum talað um dag eftir dag og nótt eftir nótt.