150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:40]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta var athyglisvert. Hv. þingmaður þekkir kjördæmi sitt ekki betur en svo að hann heldur að eina orðið sem ég breytti í ræðu minni frá því að ég fór í andsvar við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson sé nafnið á kjördæminu. Veit hv. þingmaður ekki hvar Hornafjarðarfljót er? Veit hv. þingmaður ekki að Hveragerði og Selfoss eru í kjördæmi hans? Að uppsveitir Árnessýslu eru þar? Þetta er athyglisvert en kemur kannski ekki á óvart þegar skilningur hv. þingmanna Miðflokksins á framkvæmdum virðist enginn. Komið hefur fram í dag, forseti, að hv. þingmenn Miðflokksins telja að þar sem samgönguáætlun sé í gildi þá skipti engu máli að samþykkja þessa. Þeir átta sig ekki á því að það þarf að fara að vinna strax að þeim viðbótum sem koma inn í þessa samgönguáætlun, að framkvæmdum, fjármunum, milljarðatugum, sem eiga að koma inn í vegakerfið á næsta ári, þar með talið í kjördæmi hv. þingmanns, Suðurkjördæmi, sem ég hvet hann til að ferðast aðeins um og kynna sér. Það þarf að fara að byrja að vinna að því. Það þarf að fara að byrja samninga um tvöföldun, um Ölfusárbrú, svo dæmi séu tekin, byrja að undirbúa allt sem þarf að gera í tengivegum í kjördæmi hv. þingmanns o.s.frv. En hv. þingmanni er alveg sama. Hann reynir að mála þá mynd að hann sé bara með svo breitt áhugasvið og þess vegna sé hann af og til hér í pontu að tala um borgarlínuna, en annars sé hann að þvælast hringinn í kringum landið að tala um það. Ég held að hv. þingmaður ætti að lesa yfir ræður sínar. Ég hvet hann reyndar til að vera sitjandi og í góðu jafnvægi þegar hann gerir það. Það gæti verið smá sjokk fyrir hv. þingmann að komast að því hversu mikið hann talar um borgarlínu og hversu lítið hann talar við kjósendur sína.

En þetta er bara fínt, forseti. Það er bara fínt að Miðflokkurinn sýni hér í ræðu eftir ræðu að ekki nóg með að hann þekki ekki eigin kjördæmi, sé alveg sama um framkvæmdir í eigin kjördæmum, viti ekkert hvaða framkvæmdir eigi sér stað og sé til í að standa gegn því að fjármunir komi inn til að skapa störf, heldur er hann líka fullkomlega óstjórntækur flokkur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)