150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[13:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Ég kom aðeins inn á flugvallarmál áðan og ætla að halda mig við flugið. Hér á bls. 18 er reyndar verið að leggja drög að mjög jákvæðum breytingum þegar kemur að þeim flugleiðsögukerfum sem við þurfum á að halda varðandi aðflug á Íslandi og að sjálfsögðu flug yfir Ísland líka. Hér er fjallað um svokallað EGNOS þjónustusvæði. Það kemur m.a. fram að við njótum góðs af því í dag að vera á jaðri þess svæðis sem rekið er af Evrópusambandinu. Um þetta er ágætlega fjallað í nefndarálitinu, m.a. út frá minnisblaði frá Samgöngustofu, og lagt til að hraða því ferli að skoða þessi mál.

Í nefndarálitinu kemur hins vegar fram að í sjálfu sér þurfi tvennt til svo að þetta geti orðið. Annars vegar þarf að koma beiðni frá íslenskum stjórnvöldum til Evrópusambandsins, stofnana þess, um úrbætur á EGNOS kerfinu og svo samstarf við nágrannaþjóðir. Það má líka segja að það þurfi að rannsaka uppsetningu fleiri jarðstöðva fyrir kerfið. Það kemur fram að ein EGNOS leiðréttingarstöð muni kosta um 150 milljónir og reksturinn 10–20 milljónir á ári. Við höfum séð hærri tölur í ýmsu öðru en akkúrat þessu. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á því hvort um er að ræða eina stöð eða fleiri sem þarf í þetta. En hvað um það. Það kemur alla vega fram að ríkisstjórnin þurfi að óska eftir því að fara í viðræður um að komast í kerfið. Svo þarf þessar rannsóknir.

Síðan er vísað til þess að gerðar séu ákveðnar breytingartillögur um að taka þurfi meira af skarið varðandi það að vilja komast í að nýta þetta flugleiðsögukerfi. Flutt er breytingartillaga um það á bls. 9, lið 11, staflið c.2. Þar kemur fram setning, með leyfi forseta:

„9. töluliður orðist svo: Greindar verði leiðir til þess að tryggja með bestum hætti leiðréttingatækni vegna gervihnattaleiðsögu um allt land, svo sem með aðild Íslands að nýrri geimáætlun Evrópusambandsins og/eða viðræður hafnar við framkvæmdastjórn ESB um stækkun þjónustusvæðis EGNOS svo það nái yfir Ísland.“

Það er mjög gott að fá þetta inn. Ég fagna því. Það er gott að sett sé inn breytingartillaga um að unnið verði í málinu. Ég vek hins vegar athygli á því að við erum að setja þetta inn í samgönguáætlun til fimm ára. Þetta er að mínu viti ekta mál þar sem ríkisstjórnin þarf í raun að taka ákvörðun um hvort við ætlum við að byggja upp þetta kerfi. Ef svo er förum við í viðræður við þar til bæra aðila, Evrópusambandið í þessu tilviki. Leiði þær viðræður til jákvæðrar niðurstöðu, að við ætlum halda áfram, þurfum við að setja fjárfestingar inn í áætlanir okkar. Ég fagna því að það sé sett inn í samgönguáætlun, herra forseti. Mér finnst líka mjög mikilvægt að strax komi yfirlýsingar um að ríkisstjórnin ætli að taka þetta nú þegar til vinnslu, fara strax í viðræður við þessa aðila um aðkomu okkar að kerfinu, því að það er gefið í skyn í nefndarálitinu að eldri kerfi sem eru í notkun séu á útleið, að það sé komin önnur og betri tækni og þá væntanlega nákvæmari og öruggari og allt slíkt. Við Íslendingar megum ekki sitja eftir í því.

Ég viðurkenni að ég þekki ekki alveg tengslin milli þessa búnaðar og búnaðarins sem notaður er á íslenska flugumsjónarsvæðinu. En við vitum að það er mjög stór og umfangsmikil starfsemi tengd flugumsjón á Íslandi, ekki síst yfirflugi frá Evrópu til Norður-Ameríku, svo eitthvað sé nefnt. Því er mikilvægt að við séum alltaf vel undirbúin og með nýjustu tækni á okkar snærum (Forseti hringir.) hvað þetta varðar.