150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[13:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Í lok síðustu ræðu minnar var ég að byrja að fjalla um það hvernig meiri hlutinn í borgarstjórn og fyrri meiri hlutar hafa kerfisvætt áformað brotthvarf flugvallarins úr Vatnsmýri. Ég nefndi að fyrir hartnær 20 árum hefði verið orðið ljóst að hverju borgin stefndi. Þá teiknaði ég upp kort sem sýndi hvernig sótt yrði að flugvellinum úr öllum áttum til að þrengja jafnt og þétt að honum, taka eina sneið hér og aðra þar af hinum ýmsu ástæðum, á hinum ýmsu forsendum, þangað til sagt yrði: Nú er ekki lengur pláss fyrir flugvöllinn og hann þarf að fara. Svo hefur borgin unnið að þessu markmiði sínu með því í rauninni að stilla ríkinu upp við vegg hvað eftir annað og þvinga fram hin ýmsu samkomulög um flugvöllinn, oft á þeim forsendum að verið sé að tryggja veru hans til ákveðins tíma. Ríkið hefur þá upplifað sig í þeirri stöðu að það væri þó skárra að gera einhvers konar samkomulag við borgina ef það tryggði lágmarkstíma þar sem væri einhver vissa um flugvöllinn. En svo gengur borgin bara alltaf á lagið.

Það er mjög sérkennilegt hvað borgin heldur í það markmið sitt í ljósi þess að hvað eftir annað hefur komið í ljós að yfirgnæfandi meiri hluti landsmanna er hlynntur veru flugvallarins í Vatnsmýri og telur það mikilvægt. Meira að segja fór fram atkvæðagreiðsla fyrir nokkrum árum, þau eru orðin líklega hátt í 20, en það fór þó fram atkvæðagreiðsla um þetta mál í Reykjavík, herra forseti, atkvæðagreiðsla meðal Reykvíkinga. Í þeirri atkvæðagreiðslu var yfirgnæfandi meiri hluti borgarbúa fylgjandi veru flugvallarins á sínum stað svoleiðis að málið hefði átt að vera afgreitt þá. En nei, það var haldið áfram, með þessum aðferðum sem ég hef lýst, að reyna að koma flugvellinum burt. Eitt samkomulag tekur við af öðru þar sem ríkið reynir að skapa einhverja smá vissu í nokkur ár en svo gengur borgin eða borgaryfirvöld á lagið.

Þannig var til að mynda gert samkomulag 2013 sem átti að tryggja veru flugvallarins til 2022 a.m.k., þ.e. búa til öryggi, vissu, í þann tíma gegn því að menn myndu skoða aðra flugvallarkosti. Þetta átti að vera samkomulag til þess að enda öll þessi samkomulög um Reykjavíkurflugvöll og að mínu viti til að sýna fram á hið augljósa, að langbesti kosturinn er Vatnsmýri. Ég lét meira að segja tilleiðast að undirrita það samkomulag með því skilyrði að úr því yrðu tekin nokkur atriði, einkum áform um að leggja af neyðarbrautina svokölluðu og leggja af einka- og kennsluflug. Ég sagði: Ég skal skrifa undir ef þessi atriði verða tekin út. Á það var fallist, atriðin voru tekin út úr samkomulaginu en þá var í laumi undirritað annað samkomulag milli ráðuneytis og borgarstjórnar þar sem þessu var bætt inn aftur. Það er náttúrlega fyrir neðan allar hellur en sýnir hversu einbeittur brotavilji yfirvalda í Reykjavík er í þessu máli. Þetta samkomulag til að enda öll samkomulög við borgina og fá einhverja vissu í málið var því miður ekki það síðasta. Ég hef ekki tíma til að rekja það næsta fyrr en í næstu ræðu og bið því hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.