150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[13:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að koma inn á eitt mál sem mér var bent á og hafði svo sem ekki endilega ætlað að fjalla um. Í umsögn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra um samgönguáætlun, og ég á eftir að finna fleiri umsagnir um sama mál, eru nokkur atriði talin upp og þar með tvö er lúta að flugi, annars vegar er það Alexandersflugvöllur á Sauðárkróki og hins vegar flugvöllurinn á Blönduósi, og ég tek að sjálfsögðu undir athugasemdir um hvort tveggja. Það sem mig langar að benda á hér er að þess er krafist af Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra að Alexandersflugvöllur verði skilgreindur inn í grunnnet flugvalla. Það er ekkert slíkt í breytingartillögum meiri hlutans. Það er engin breytingartillaga um það eða ég finn því alla vega ekki stað, ég ætla að hafa smáfyrirvara á því, kannski hef ég mislesið þetta, en ég get ekki séð að orðið sé við þeirri brýnu ósk með nokkrum hætti.

Á bls. 19 í nefndaráliti eru vangaveltur um flokkanir flugvalla. Þar er tveimur flugvöllum bætt inn í texta um áætlunarvelli, og ég ítreka að þetta eru vangaveltur um mögulega flokkun á flugvöllum, og það eru Sauðárkróksflugvöllur eða Alexandersflugvöllur og Þingeyrarflugvöllur, sem er ekki síður mikilvægur. Mér finnst mjög sérstakt ef þetta á að vera dúsan upp í Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Fjórðungssamband Vestfirðinga sem ég geri ráð fyrir að hafi bakkað upp Þingeyrarflugvöll, þó að ég hafi ekki alveg rýnt í það, við skulum bara tala um Vestfirðinga; ef það er dúsan að vera með þessa flugvelli í einhverjum málamyndavangaveltum þá er það vitanlega fáránlegt. Meiri hluti nefndarinnar hefði í breytingartillögum sínum átt að gera ráð fyrir að þessir flugvellir yrðu færðir inn í skilgreiningu grunnnetsins. Við vitum ekki hvort farið verður í þá vinnu sem hér er um að ræða, að endurskilgreina þetta, en gefið er í skyn að þetta geti verið ein flokkunin. Þetta hefði þurft að vera miklu skýrara og yfirfærast inn í breytingartillöguna.

Að þessu sögðu verð ég að koma inn á það, eftir að hafa fengið þessa ábendingu, að það er vitanlega alveg furðulegt — í ljósi þess að flugmenn almennt, og þeir sem eru í þessum bransa, ef þannig má orða það, eru margir sammála um að einhver besti flugvöllur landsins sé einmitt Alexandersflugvöllur — að ekki sé meiri metnaður hjá nágrönnum Skagfirðinga í Eyjafirði að byggja upp þennan flugvöll sem varaflugvöll fyrir Akureyri, fyrir Eyjafjörð. Næsti varaflugvöllur fyrir það svæði er annaðhvort á Egilsstöðum eða í Keflavík eða Reykjavík. Ef við horfum á heiðarnar sem þarf að fara yfir ef koma á farþegum milli staða er engin glóra í því að fara ekki í nákvæmar rannsóknir á þessum kostum. Það er einn og hálfur tími frá Sauðárkróksflugvelli til Akureyrar ef farþegar þurfa að lenda þar. Það eru þrír til fjórir tímar suður til Reykjavíkur með farþega ef ekki er hægt að lenda þar. Það eru fjórir til fimm tímar til Keflavíkur í staðinn fyrir að þvæla fólki kannski sex til átta tíma frá þeim varaflugvöllum sem nú eru í notkun. Á þessu myndu allir græða og það þarf ekki að bregða fæti fyrir uppbyggingu á öðrum varaflugvöllum því að ef fer fram sem horfir mun notkunin á þessum flugvöllum öllum stóraukast og það er þörf fyrir þá alla. Í okkar víðfeðma landi og stóru eyju er full þörf fyrir góða flugvelli, að ekki sé talað um hlutverk okkar sem öryggisstaðar milli vesturs og norður, á milli Evrópu og Norður-Ameríku sem getur líka skipt máli. Við höfum líka séð að þegar flugvélar geta ekki lent í Keflavík hefur þeim verið lent í Skotlandi eða á Egilsstöðum og ég ítreka að mikilvægt er að byggja Egilsstaðaflugvöll upp, við megum ekki slá af neinu þar, en þaðan hefur verið beint millilandaflug og má að sjálfsögðu halda því áfram.

En mér finnst mjög sérstakt að nefndin skuli ekki taka við þessari ósk með meira afgerandi hætti, þetta er eitthvert málamyndaorðalag sem þjónar ekki þeim tilgangi sem til er ætlast af hálfu þeirra sem gáfu umsagnir um málið.