150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég vil hefja ræðu mína á því að leiðrétta það sem ég sagði í fyrri ræðu minni. Ég vitnaði í umhverfisverkfræðinginn Þórarin Hjaltason en fór einu sinni eða tvisvar rangt með nafn hans. Ég bið hann afsökunar á þessu og óska eftir því að þetta verði leiðrétt í uppriti á ræðum. Sá sem ég vitnaði svo oft í heitir Þórarinn Hjaltason umferðarverkfræðingur, svo að það sé til bókar fært.

Herra forseti. Ég var að tala um borgarlínuna og ég var að tala um grein Þórarins í Kjarnanum þar sem hann nefndi að framsetning væri áróðurskennd. Þetta væri sett fram á þann hátt að það líktist fremur áróðursherferð en kynningu á framkvæmdum með upplýsingum og vísunum til skipulags og útreikninga og raunhæfra tillagna. Þetta væri sett í fallegar umbúðir og ég hélt því fram að það væri hugsanlega gert til að slá ryki í augu almennings og annarra til að kaupa þessari hugmynd fylgi, sem er sannarlega mjög dýr og það liggur fyrir nú þegar. Hún er mjög dýr og ég hef áhyggjur af því eins og margir aðrir þingmenn að framkvæmdin verði mun dýrari. Fyrir því eru mörg fordæmi annars staðar frá og líka hérlendis að slíkar framkvæmdir, sérstaklega þegar þær eru illa útfærðar og jafnvel óútfærðar, verði miklum mun dýrari en ráð er fyrir gert.

Þessi blekkingaleikur hefur haldið áfram eins og ég sagði hér áðan varðandi vefsíðu borgarlínunnar. Umferðarverkfræðingurinn Þórarinn Hjaltason nefnir nokkur dæmi um áróðurskennt orðalag þar. Af hverju heldur þessi leikur áfram? Það er til að sannfæra stjórnvöld og nágrannasveitarfélög um að það sé nauðsynlegt að dæla áfram fjármagni í þessa draumaverksmiðju borgarstjórnarmeirihlutans. Af hverju kalla ég þetta draumaverksmiðju? Vegna þess að þetta virðist vera byggt á skýjaborgum og draumum og er einnig þannig fram sett. Umbúðirnar eru svo fallegar, herra forseti, að fólk hefur veigrað sér við að gagnrýna þessar hugmyndir. Og eins og oft áður, þegar mikil og mestöll vinna fer í að útbúa umbúðirnar, meðan tíminn og krafturinn fer í það, þá gerir fólk ráð fyrir því að í pakkanum sé vönduð hugmynd, vönduð framkvæmd. Það er bara eins og með jólapakkana; eftir því sem þeir eru stærri og fallegri hefur maður meiri væntingar um að í þeim sé eitthvað veglegt.

Fjöldi fólks í stjórnkerfinu, nágrannasveitarfélögunum og í ríkisstjórninni hefur nú þegar stokkið á þennan vagn og er reiðubúið til að reiða fram hátt gjald til að losna úr þessari prísund, herra forseti. Og hver er þessi prísund? Hún er sú að framkvæmdir í nágrannasveitarfélögum og á höfuðborgarsvæðinu hafa verið í algeru stoppi síðastliðinn áratug og jafnvel lengur. Hér hefur ekkert verið hægt að vinna í uppbyggingu stofnbrauta, mislægra gatnamóta og slíku. Afleiðingin er sú sem allir Reykvíkingar og höfuðborgarbúar þekkja. Þeir hafa verið hér stopp, það er ekki bara framkvæmdastopp heldur hafa íbúarnir verið stopp í bókstaflegri merkingu í umferð dag eftir dag, á leið til og frá vinnu, skóla og annarra erindagjörða. Þetta er ekki bara framkvæmdastopp, þetta er algjört stopp.

Til þess að kaupa sig út úr þeirri prísund sem þetta stopp skapar eru menn tilbúnir að borga og stökkva á þessa hugmynd. Það hef ég kallað hér í ræðustól lausnargjaldið. Hver borgar lausnargjaldið? Helst og aðallega ríkissjóður. Þess vegna erum við í ræðustól Alþingis að tala um þetta. Þetta er hluti af samgönguáætlun, lausnargjaldið. Ég fór nú yfir það í ræðu áðan að eðli lausnargjalda felst náttúrlega í því hvernig hægt er að selja það og hversu dýrmætt (Forseti hringir.) það er sem ætlunin er að leysa úr haldi. Það er alþekkt í lögreglunni að gíslataka leiðir til lausnargjalds.