150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:15]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Úr því að aðrir þingmenn fást ekki til að taka þátt í þessari umræðu kynni kannski einhver að spyrja: Hvað er það sem Miðflokkurinn vill í samgöngumálum? Miðflokkurinn vill greiðar, hagkvæmar og öruggar samgöngur á landi, lofti og legi. Ef við lítum sérstaklega til Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins leggjum við áherslu á Miklubrautina, hina miklu æð sem tengir saman austur- og vesturhluta borgarinnar. Hún þarf að vera greið og hindrunarlaus, allt frá Ártúnsbrekku og vestur á Melatorg. Melatorg er torgið sem stendur við Þjóðminjasafnið, eins og menn þekkja. Það hafa verið settar fram tillögur í því efni af kunnáttumönnum. Ég bendi sérstaklega á fyrrum prófessor, Jónas Elíasson, sem var um áratugaskeið prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands.

Við viljum Sundabraut, herra forseti. Ýmsir hafa lagt sig fram um að benda á hagkvæmar lausnir í því efni þó að borgaryfirvöld hafi með ýmsum ákvörðunum og aðgerðum torveldað þá framkvæmd. Ég vil sérstaklega benda á grein og viðtöl í Morgunblaðinu við Gunnar Bjarnason verkfræðing. Við viljum ljósastýringu á gatnamót, herra forseti. Við viljum að umferðin gangi greiðlega fyrir sig. Við sjáum að ljósastýring er mjög til hagsbóta þar sem henni er beitt. Við í Miðflokknum viljum að fé til samgöngumála sé varið með hagkvæmum og skilvirkum hætti. Það er af þeirri ástæðu sem við getum ekki fellt okkur við áformin um svokallaða borgarlínu, ekki af því að við höfum eitthvað við almenningssamgöngur að athuga. Við erum hlynnt almenningssamgöngum. En þegar talað er um að ríkið eigi að verja 50 milljörðum í þetta verkefni getum við ekki forsvarað þá ráðstöfun á opinberu fé, ekki þegar á það hefur verið bent af kunnáttumanni, sem var nokkrum sinnum vitnað til, þ.e. vitnað var í grein eftir Þórarin Hjaltason í Kjarnanum í mars 2019, að hægt sé að ná sama árangri fyrir nokkra milljarða. Það er ekki nokkur leið, herra forseti.

Það stendur upp á þá sem bera ábyrgð á málum og standa fyrir þessum fyrirætlunum. Auðvitað stendur það sérstaklega upp á Sjálfstæðisflokkinn sem fer með málefni ríkissjóðs, fer með ríkisfjármálin. Hann verður auðvitað að útskýra hvers vegna hann ljáir máls á því að verja 50 milljörðum af opinberu fé í verkefni sem er ekki einu sinni almennilega skilgreint. Það næsta sem menn hafa komist er að þetta sé rauður dregill fyrir strætó sem víðast. Að öðru leyti skortir fullnægjandi kostnaðaráætlanir, vantar greiningu á því hvaða þættir gætu valdið því að þær kostnaðaráætlanir brygðust. Það vantar arðsemismat. Það vantar raunhæfar áætlanir um það hver notkunin á þessari borgarlínu yrði og það vantar líka greiningu á því hvernig hún muni rekast á almenna umferð sem auðvitað verður að vera greið hér í borginni.

Með þessu vonast ég til að hafa varpað ljósi á það með skýrum hætti hver stefna Miðflokksins í þessum málum er. Ég hef náttúrlega einbeitt mér sérstaklega að höfuðborgarsvæðinu, sem þingmaður Reykvíkinga, en ég á margt eftir ósagt í þessu máli, herra forseti, og bið vinsamlegast um að verða settur á mælendaskrá að nýju.