150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:30]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Sá sem hér stendur hefur verið á ferðalagi um Norðausturkjördæmi í ræðum í dag. Ég var staddur á Vestfjörðum en er núna kominn í Dalabyggð og langar mig til að vitna í umsögn frá sveitarstjórn Dalabyggðar um samgöngumál. Það sem fram kemur í umsögninni hef ég oft rætt um, en það er gott að það komi fram í textanum því að aldrei er góð vísa of oft kveðin.

Með leyfi hæstv. forseta:

„Í markmiðum draga að samgönguáætlun er talað um jákvæða byggðaþróun og [að] stefnt verði að því að auka lífsgæði um land allt með bættum samgöngum og styrkja þann grunn sem nauðsynlegur er til að efla fjölbreytta atvinnu og bæta samkeppnishæfni, svo sem með betri aðgangi að þjónustu. Áherslur til að ná þessum markmiðum eru m.a. að leitast verði við að styrkja samgöngur þannig að sem flestum landsmönnum sé kleift að nálgast nauðsynlega opinbera þjónustu á sem stystum tíma, unnið verði að styttingu ferðatíma innan vinnu- og skólasóknarsvæða. Framkvæmdir og þjónusta samgöngukerfisins miði að því að auka öryggi og styrkja vinnu- og skólasóknarsvæði, einnig að mótuð verði stefna um vegi sem aðallega þjóna ferðamönnum.“

Þetta kemur fram í áætlun um byggðamál. Þetta eru mjög háleit markmið. En svo segir áfram í umsögninni:

„Það er ljóst að hlutur Dalabyggðar er ekki mikill í samgönguáætlun og seint farið í verkefni og ekki er verið að uppfylla markmið áætlunarinnar varðandi samgöngur innan sveitarfélagsins, en framangreind atriði eru öll lykilþættir í að auka búsetugæði í Dalabyggð og efla byggðina.“ En það vantar efndirnar.

„Vegakerfið í Dalabyggð er með því verra sem gerist og er sveitarfélagið í 70. sæti af nær jafn mörgum sveitarfélögum á landinu yfir hlutfall vega með bundnu slitlagi. Tíðni umferðarslysa er einnig einna mest í Dalabyggð og er vegakerfið innan sveitarfélagsins það fimmta hættulegasta á landinu samkvæmt samgönguáætlun Vesturlands sem unnin var á vegum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi á árinu 2017. Nýlega hafa verið dregnar fram þær upplýsingar að vegur 54 sé annar hættulegasti vegur á Vesturlandi.“ Þar er átt við Skógarstrandarveg.

„Vegakerfið í Dalabyggð hefur fengið litla athygli stjórnvalda undanfarin ár, þrátt fyrir mikla fjölgun ferðamanna og uppbyggingu í ferðaþjónustu víðs vegar í sveitarfélaginu. Það að samgöngur séu í lagi er eitt af grunnskilyrðum fyrir byggð í sveitarfélaginu. Vegir í Dalabyggð eru illa farnir, með litla þjónustu, slys eru tíð og einbreiðar brýr eru mjög margar, sumar hverjar staðsettar á blindhæðum eða í blindbeygjum. […] Í þessu sambandi vísast til eftirfarandi samþykktar fræðslunefndar Dalabyggðar …“ — Hún fjallar reyndar um þessi mál í smærri atriðum.

Þarna kemur fram hvað þetta svæði landsins, Dalabyggð, situr aftarlega í uppbyggingu samgöngumála. Vil ég þá minna á stefnu, sem ég hef oft gert í ræðum mínum, þ.e. stefnu okkar Miðflokksins um Ísland allt, að þegar kemur að uppbyggingu innviða sé gætt jafnræðis á landinu öllu. Þar er eitt fremsta málið samgöngumál sem unnið yrði að með því að taka allt landið í einu, í einni heild, þannig að jafnræðis yrði gætt á milli byggðarlaganna, til að uppbygging gæti átt sér stað jafnt hringinn í kringum landið.