150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram þar sem frá var horfið í síðustu ræðu. Ég hef verið að fara yfir mjög athyglisvert bréf eða álitsgerð sem einn okkar helsti sérfræðingur á sviði skipulagsfræða, dr. Trausti Valsson, arkitekt og skipulagsfræðingur og prófessor emeritus í skipulagsfræðum við Háskóla Íslands, sendi ásamt Þórarni Hjaltasyni umferðarverkfræðingi til bæjarstjórnar í Hafnarfirði þar sem þeir fóru yfir áhyggjur sínar varðandi borgarlínu. Þeir segja að engu að síður þurfi að fara í mikilvægar vegaframkvæmdir þrátt fyrir hugmyndir um borgarlínu, sem þeir gagnrýna reyndar töluvert í þessu bréfi. Þeir benda á að þrátt fyrir tilkomu borgarlínu þurfi að ráðast í nýframkvæmdir á þjóðvegum upp á 70–80 milljarða á þessu tímabili. Þar eru nefnd dæmi um Sundabraut, Reykjanesbraut í vegstokk milli Lækjargötu og Kaplakrika, ofanbyggðaveg milli Kaldárselsvegar og Arnarnesvegar, auk þess sem nefndar hafa verið þveranir yfir Fossvog og Skerjafjörð. Síðan segja þeir, með leyfi forseta, að borgarlína geti aðeins frestað ódýrum breikkunum á vissum köflum um nokkur ár. Einnig er bent á að ekki sé tekið tillit til sjálfkeyrandi bíla og áhrifa þeirra á þróun umferðar og að borgarlína kalli á kostnaðarsama stíga og akreinagerð til að auðvelda aðgengi biðstöðvum. Það er mjög mikilvægt. Lagt er upp með að borgarlína greiði úr umferðarvanda, að hægt verði að ferðast á skemmri tíma. En það gleymist svolítið í umræðunni að maður þarf að koma sér á þá staði þar sem stoppistöðvarnar eru og ekki felst tímasparnaður í því, þannig að það þarf að taka með í reikninginn. Í ljósi þessa telja sérfræðingarnir að athuga verði málið nánar og taka aðrar lausnir til athugunar.

Það er mjög athyglisvert að heyra þetta frá einum helstu skipulags- og umferðarsérfræðingum landsins sem hafa miklar efasemdir gagnvart borgarlínu. Auk þess hefur Þórarinn Hjaltason umferðarverkfræðingur skrifað athyglisverðar greinar um þessi mál sem m.a. hefur verið vitnað til í þessari umræðu.

Þetta er stórt og umfangsmikið verkefni sem kostar mikla fjármuni úr ríkissjóði, nú þegar stefnir í methalla hjá ríkissjóði. Það verður erfitt á næstu misserum þegar kemur að fjármálum ríkisins og fara þarf í niðurskurð og hagræðingu. En á sama tíma á hér að samþykkja útgjöld ríkisins upp á 50 milljarða kr. í þetta verkefni þegar engan veginn er hægt að segja til um hver ávinningurinn verður í raun. Ég segi hér og nú að ég hefði talið fullkomlega eðlilegt í ljósi þess sem gengið hefur á í efnahagsmálum þjóðarinnar á örfáum mánuðum, að þessu verkefni yrði bara ýtt til hliðar og sett á ís, einfaldlega vegna þess að við höfum ekki efni á að ráðast í svo gríðarlega framkvæmd þegar ekki er ljóst hver ávinningurinn er og hverju hún á að skila.

Ég minni á að gengið hefur erfiðlega að fjölga þeim sem taka strætisvagna. Hafa verið settir töluverðir peningar í það og árangurinn er lítill sem enginn. Hvað hefur breyst í þeim efnum? Ég held að það sé nokkuð sem við verðum að horfa í þegar menn ætla að leggja í viðamikið verkefni sem byggist á því að almenningur nýti þessa samgöngumáta, að allt bendir til þess og reynslan er sú að gengið hefur mjög erfiðlega að fjölga þeim sem taka strætisvagna. Það er nokkuð sem ekki er hægt að horfa fram hjá í svo viðamiklu verkefni sem byggist fyrst og fremst á strætisvögnum.