150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Líkt og hv. þm. Ólafur Ísleifsson, sem talaði hér á undan mér, langar mig aðeins að vitna í stórgóða ræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen. Hv. þingmaður er óhrædd við að fylgja sannfæringu sinni og lýsa skoðunum sínum. Ég hygg að orð hennar megi yfirfæra á mjög margan Sjálfstæðismanninn sem furðar sig á því hvernig komið er fyrir flokki sem hann hefur stutt í gegnum árin í öllu því samgöngubixi sem hér er í gangi, þar sem flokkurinn hefur gengið í björg með borgarstjórnarmeirihlutanum sem vill knýja í gegn hina svokölluðu borgarlínu.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði, það framkvæmdastopp sem verið hefur á höfuðborgarsvæðinu er mjög alvarlegt, ekki síst út frá öryggi vegfarenda, þ.e. að akstursleiðirnar eru ekki jafn öruggar og þær geta verið. Mislæg gatnamót geta leyst töluvert af því eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni. En eins og ég nefndi í síðustu ræðu minni, held ég að hafi verið, þá er það liður í almannavörnum að fólk geti komist af þessu svæði með sem auðveldustum hætti komi til slíks atburðar.

Það hefur líka komið fram, og hv. þm. Sigríður Á. Andersen bendir á það, að nágrannasveitarfélög Reykjavíkur hafi fengið dúsur í gegnum þennan höfuðborgarsáttmála en það er í sjálfu sér ekkert nýtt. Þetta eru verkefni sem voru á áætlun þannig að það er aðeins verið að laga myndina af því. Það ætti hins vegar að vera metnaður hjá meiri hluta sveitarfélaganna að horfa til öryggis en svo er greinilega ekki, ef við horfum t.d. á Kópavog, Hafnarfjörð og Garðabæ. Það virðist enginn áhugi vera hjá þeim meiri hlutum að horfa á öryggi íbúa er kemur að umferðarmálum. Af hverju er þetta fólk ekki að þrýsta á það að akstursleiðirnar í gegnum Reykjavíkurborg séu tryggar og öruggar og greiðar? Þegar þú ert kominn austur fyrir Elliðaár — ég verð að viðurkenna að ég er alltaf hálfáttavilltur í þessu húsi — þá eru allir komnir á sama stað hvaðan sem fólk kemur af suðvesturhorninu. Það er ábyrgðarhluti að huga ekki að þessu og við stöndum hér og ræðum samgönguáætlun til að benda á þessa hluti. Þó að einhverjir fulltrúar þeirra flokka sem mynda meiri hluta í sveitarfélögunum hér í kring berji sér á brjóst og slíkt þá eru þeir ekki búnir að klára málin. Ef borgarlína ætlar að fara að taka tugi milljarða frá ríkinu mun hún að sjálfsögðu á sama tíma tefja aðrar framkvæmdir því að þeir peningar verða ekki notaðir mörgum sinnum. Þeir sem hafa skrifað undir það að þessi lína skuli vera aðalmálið þurfa líka að svara fyrir það í sínum sveitarstjórnum, og geta útskýrt það fyrir kjósendum sínum, hvort endanlegur kostnaður sé ljós. Það þarf ekkert mikið til að þetta hlaupi á milljörðum króna og fyrir sveitarfélög, lítil sem stór, skiptir miklu máli að ekki sé óvissa um það.

Hv. þm. Sigríður Andersen, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Ólafs Ísleifssonar þegar hann vitnaði í ræðu hennar, kallar borgarlínu óútfært fyrirbæri. Það er alveg rétt, þetta er óútfært fyrirbæri. Það er svo mikil óvissa um hvað þetta á í rauninni að vera og hvernig útfærslan verður að það er ábyrgðarhluti að fara að festa þessa miklu fjármuni og forgangsraða í þágu þess sem við vitum ekki hvað er. Það sem meira er, og enn og aftur, hæstv. forseti: Við vitum ekki hver niðurstaðan verður. Það er ekki vitað hver endanleg tala verður. Ætla þingmenn Sjálfstæðisflokksins að taka ábyrgð á því að samþykkja hér samgönguáætlun og samninga og síðan fjárlög sem eru opin í ríkissjóð og ekki með neinum fyrirvörum sem halda?