150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:57]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að velta hér upp hugmyndum um skosku leiðina sem við höfum talað aðeins um. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki alveg um hvað hún snýst, ekki nema það að fólk fær flug niðurgreitt. Mig minnir að hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir hafi talað um það hér um daginn að þessar niðurgreiddu flugleiðir væru um flugvelli sem ekki teldust til alþjóðaflugvalla. Ég kann að hafa tekið rangt eftir en mér sýnist að ef við ætlum að fara skosku leiðina þá séum við með Keflavík, Reykjavík, Egilsstaði og Akureyri fyrir utan sviga. Þessir vellir eru alþjóðaflugvellir og þeir eiga þá ekki við ef við erum að fara skosku leiðina.

Kannski er þetta bara útúrdúr en ég leyfi mér að hugsa aðeins upphátt. Ég fann grein sem fjallar um málið og tekur saman niðurstöður af málþingi sem haldið var. Þar er talað um að þeir íbúar sem búa á afskekktustu svæðunum í Skotlandi fái afslátt á flugferðum og það er allt að 50% afsláttur. Þar er talað um sex áfangastaði innan og utan Bretlandseyja og talað er um að ríkið standi fyrir þessu og svo komi flugfélög að þessu. Það sem hefur gerst er að fleiri flugfélög hafa komið inn á markaðinn vegna þessarar skosku leiðar. Nú erum við með hið íslenska innanlandsflugfélag sem heitir Air Iceland Connect og við erum með flugfélagið Erni. Við erum með Mýflug sem sér mikið til um sjúkraflug og fleiri flugfélög sem ég kann ekki að nefna, en ég veit af þeim. Ef niðurgreiðsla verður á flugi munum við hugsanlega sjá fleiri flugfélög á þessum markaði okkar sem ætti sannarlega að verða okkur búbót og setja af stað einhvers konar samkeppni en þetta er svolítið snúið.

Í Skotlandi er talað um að 70.000 einstaklingar njóti slíkrar niðurgreiðslu á ári. Ef upphæðin er færð yfir í íslenskar krónur er kostnaður ríkisins 16.000–17.000 kr. á hvern notanda. Nú get ég ekki annað en hugsað dálítið neikvætt. Við erum jú ekki svo mörg og því er kannski erfitt að ætla að markaður sé fyrir þessa leið nema þá einna helst ef við sníðum leiðina að litlu flugfélögunum, ef svo má að orði komast. Það kostar minna að reka litlar flugvélar en þessar stóru og við höfum augljóslega orðið vör við það í innanlandsfluginu núna. Ég þarf t.d. að fljúga á milli Akureyrar og Reykjavíkur og þá eru litlu vélarnar gjarnan notaðar en ekki þær stærri sem voru komnar á sínum tíma.

Ég ætla að halda áfram að skoða þessa skosku leið af því að ég held að það séu mjög margir sem ekki vita raunverulega um hvað hún snýst, og ekki veit ég það. Mér finnst hún hljóma vel en hún þarf að vera raunhæf og gagnast okkur öllum þegar upp er staðið.