150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:18]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Virðulegi forseti. Ég fjallaði í síðustu ræðu minni um þau áform sem virðast vera uppi um að setja Miklubraut í stokk, eins og það er orðað. Með því er átt við að grafa hana niður í jörðina. Ég vitnaði til greinar eftir Jónas Elíasson, prófessor emerítus, sem birtist í Morgunblaðinu 19. maí sl. Hann telur að þessi áform séu bersýnilega í þeim tilgangi að geta úthlutað lóðum ofan á stokknum og væntanlega til að bæta fjárhagsstöðu borgarsjóðs ef ég skil höfund rétt. Jónas bendir í framhaldi af þessu á dæmi frá Boston í Bandaríkjunum og rifjar upp að þar var farið í að grafa niður um einnar og hálfrar mílu langan aðalveg og átti að kosta 3 milljarða bandaríkjadala en verkefnið tók 15 ár, segir höfundur, og fór úr ráðgerðum 3 milljörðum í 9 milljarða. Framkvæmdakostnaður þrefaldaðist. Jónas Elíasson spyr, með leyfi forseta:

„Langar menn í svona ævintýri? Það þarf enginn að efast um að kostnaðaráætlunin fyrir stokkinn á eftir að þrefaldast, ef ekki tífaldast, þegar byrjað verður að hjakka sig niður í gegnum alla leiðslusúpuna, niður í grágrýtið og lenda þar í vatnsaganum.“

Herra forseti. Það er aðal góðra stjórnvalda að byggja áform sín og ákvarðanir á þekkingu og ráðum færustu og bestu manna. Þegar við erum að fjalla um þessi mál, samgöngumálin í Reykjavík, þá rekum við okkur hvað eftir annað á það að kunnáttumenn mæla gegn þessum áformum. Hér er mælt mjög eindregið gegn því að grafa niður Miklubraut, setja hana í stokk, eins og það er orðað. Í þessum umræðum hefur þráfaldlega verið vitnað til kunnáttumanna, þar á meðal Þórarins Hjaltasonar verkfræðings og Trausta Valssonar, fyrrum prófessors, þar sem þeir andmæla borgarlínu. Það hefur komið fram að ríkið ætli að setja tæpa 50 milljarða í það sem fræðimenn telja alveg glórulausa vitleysu.

Ég er hér með dæmi um slíkt álit eftir Jónas Elíasson. Hann ritaði grein í Morgunblaðið 14. maí á þessu ári undir yfirskriftinni: Borgarlínan á ekki að vera til umræðu. Hann segir að opinbert hlutafélag fyrir borgarlínu, eins og ráðgert er að stofna með sérstöku frumvarpi sem liggur fyrir þinginu, sé glapræði. Þetta opinbera hlutafélag á að hafa það sem eitt af sínum helstu verkefnum að ráðast í borgarlínu. Hann segir það opna á þann möguleika að reka fyrirtæki eins og gert var við þang- og þaraverksmiðjuna á Reykhólum í mörg ár. Ríkið hafi borgað hið árlega tap með því að auka hlutafé sitt í fyrirtækinu.

Herra forseti. Ég þarf að fjalla nánar um þessa grein Jónasar Elíassonar. Hann endar hana á orðunum: „Ótrúlegt að borgarlína skuli vera til umræðu yfirleitt.“ Það þarf að fjalla nánar um þessi sjónarmið og ég bið um að verða settur á mælendaskrá að nýju.