150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:33]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Nú er svo komið á ferðalagi mínu um Norðvesturkjördæmi að ég er kominn norður í Skagafjörð. Hér er heljarmikil umsögn frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, SSNV, og mig langar að grípa niður þar sem segir, með leyfi forseta:

„Um nokkurt skeið hefur endurbygging Skagastrandarvegar verið inni á samgönguáætlun en með hverri nýrri áætlun verið ýtt aftar í framkvæmdaröðina. Hönnun var nýverið boðin út og stendur nú yfir. Í síðustu samgönguáætlun var gert ráð fyrir að vinna hæfist á árinu 2020 en í þeirri tillögu sem nú er fram komin er framkvæmdum frestað til ársins 2022. Við það geta íbúar landshlutans ekki unað. Vegurinn er með hættulegustu vegum landsins. Um hann fara miklir þungaflutningar og umferð ferðamanna hefur stóraukist. Vegurinn er ein þeirra framkvæmda sem sveitarstjórnir landshlutans alls setja í forgang í nýrri samgöngu- og innviðaáætlun. Það eru vonbrigði að aðgerðir þær sem gripið er til í því augnamiði að flýta samgönguframkvæmdum á landinu skili sér ekki á Norðurland vestra heldur sé brýnum framkvæmdum á svæðinu ýtt aftar í framkvæmdaröðina. Stjórn SSNV krefst þess að framkvæmdir við Skagastrandarveg hefjist árið 2020.“

Svo er fjallað um Alexandersflugvöll, en ég hef mælt tvisvar eða þrisvar sinnum fyrir þingsályktunartillögu um að Alexandersflugvöllur verði gerður að varaflugvelli. Fyrir því eru mjög góð rök vegna stöðu hans á landinu. Þar eru mjög góð aðflugsskilyrði og veðurfar á því svæði er þannig að vindáttin veldur því að það er gott bæði að lenda og taka til flugs. En tillagan hefur ekki hlotið brautargengi og er það miður.

Í umsögninni segir áfram, með leyfi forseta:

„Í umfjöllun um flugvelli er Alexandersflugvöllur enn ekki skilgreindur í grunnneti flugvalla eins og lögð hefur verið áhersla á af hálfu SSNV allt frá því að hann var tekinn út úr grunnnetinu með einu pennastriki. Á árinu 2018 var unnið tilraunaverkefni með stuðningi úr sóknaráætlun Norðurlands vestra. Þá kom flugfélagið Ernir á reglulegu áætlunarflugi milli Sauðárkróks og Reykjavíkur. Flugið var nokkuð vel nýtt en mál manna að verkefnið hafi ekki varað nægilega lengi til að full reynsla kæmist á það. Mikilvægt er að það verði tekið upp að nýju og það flug verði hluti af áformum sem kölluð hafa verið „skoska leiðin“ sem miðar að því að niðurgreiða flugfargjöld íbúa í einkaerindum í samræmi við tillögur starfshóps um uppbyggingu flugvallakerfisins og eflingu innanlandsflugs sem almenningssamgangna.“

Svo langar mig til að grípa niður aftar í umsögninni, sem er heljarmikið plagg. Þar er fjallað um hugmyndir um göng í gegnum Tröllaskaga, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórnir Skagafjarðar og Akureyrar funduðu í upphafi árs 2019 og sendu í kjölfarið frá sér sameiginlega áskorun til stjórnvalda um að hafin verði skoðun á hagkvæmni þess að gerð verði jarðgöng í gegnum Tröllaskaga. Sömuleiðis er mikilvægt að ráðast í að skoða efnahags- og samfélagsleg áhrif af slíkri framkvæmd.“

Síðan er heilmikill texti til að rökstyðja nauðsyn þessa. Þetta myndi náttúrlega gjörbreyta samgöngum frá Norðurlandi eystra yfir á Norðurland vestra og á hringveginum öllum. Það er mjög spennandi að sjá hvort ekki sé hægt að fylgja þessu máli eftir. Þetta partur af því að koma samgöngumálum í gott horf.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá.