150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:44]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég hef verið að fjalla um umsögn dr. Trausta Valssonar, skipulagsfræðings og fyrrverandi prófessors við Háskóla Íslands, sem er einn af okkar helstu sérfræðingum í skipulagsfræði og margt mjög fróðlegt sem Trausti hefur látið frá sér fara um borgarlínu. Ég vil hvetja þingmenn til að kynna sér það sem dr. Trausti hefur sagt um borgarlínuna vegna þess að þar talar maður af yfirburðaþekkingu á skipulagsmálum. Hann segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Einna versta atriðið í sambandi við borgarlínurnar er, að höfundarnir virðast ekki átta sig á að borgarsvæði — og þar með strætisvagnakerfi — eru stöðugt að breytast. Við þekkjum t.d. flest að einu sinni var miðpunktur strætókerfisins á Lækjartorgi. Nú er Hlemmur slíkur miðpunktur, en samkvæmt nýjum tillögum á BSÍ að verða „miðpunkturinn“. Lega hans, sem er mjög vestanlega, þ.e. í útnára höfuðborgarsvæðisins, er ekki góð, en best er að miðpunktar kerfa séu sem næst miðju viðkomandi svæðis.“

Það er náttúrlega heilbrigð skynsemi að átta sig á því. En í dag er þyngdarpunktur höfuðborgarsvæðisins í Kópavogi, segir Trausti.

„Í fljótu bragði gæti maður haldið að línurnar gætu sparað kostnað, t.d. í stofnbrautum eða í hefðbundnum strætókerfum. Því miður yrði það mjög lítið. Fyrir tíu árum ákvað höfuðborgarsvæðið í samvinnu við Ögmund samgönguráðherra, að taka þann milljarð sem farið hefur í stofnbrautir frá ríkinu á ári, og láta féð renna til strætós og stíga í tíu ár, þ.e. alls tíu milljarða. Þessi samningur hefur þýtt að í stofnbrautakerfinu hafa mörg mikilvægum verkefnum ekki verið sinnt […]“

Stofnbrautakerfinu í Reykjavík hefur ekki verið sinnt vegna þess að það var gerður samningur um það að setja peningana í strætó. Það þýðir náttúrlega að verkefnaþörf hefur safnast upp og flöskuhálsar orðið til og orðið mjög brýnt að leysa úr þessu. Þegar það er gert, segir Trausti, og þar vil ég taka heils hugar undir með honum, fer umferðin aftur að flæða eðlilega.

Það má í raun og veru segja að Reykjavíkurborg hafi búið til þetta vandamál, með því að slá á frest framkvæmdum við stofnbrautir, sem á síðan að leysa með því að byggja borgarlínu sem ríkissjóður á að borga að stærstum hluta og ætlast svo til þess að íbúarnir á höfuðborgarsvæðinu fari þá flestallir í strætó. Það er eitthvað sem gengur ekki upp.

Dr. Trausti nefnir brýn stofnbrautaverkefni og í svona vanræktar framkvæmdir verða fjárframlög frá ríkinu að fara á næstu árum, það segir sig sjálft. Tilkoma borgarlínu einhvern tímann í framtíðinni mun ekki leysa svona vandamál. Auk þess bíða margar aðrar stórar framkvæmdir sem ríkið á að greiða að mestu og við sjáum hér í samgönguáætlun. Trausti nefnir sérstaklega Sundabrautina sem mun létta mjög á Ártúnsbrekkunni og Miklubrautinni.

„Úr suðri er mikilvægt að komi álíka tenging undir eða yfir Skerjafjörðinn sem myndi draga mjög úr álagi á Hafnarfjarðarveg, Kringlumýrarbraut, Miklubraut. Þessar tvær tengingar, þ.e. til suðurs og norðurs úr borginni, eru að auki mjög nauðsynlegar út frá almannaöryggi því það er óforsvaranlegt að aðeins ein leið sé opin suður og norður úr borginni ef voða ber að höndum.“

Hér talar maður af þekkingu á skipulagsmálum farsælan feril í meira en 30 ár á þessu sviði og við eigum að hlusta á raddir manna sem þekkja vel til, eins og í þessu tilfelli. Það er alveg ljóst að sá einhæfi málflutningur sem hefur verið viðhafður af hálfu borgaryfirvalda (Forseti hringir.) er eitthvað sem verður að skoðast með tilliti til þess að það eru önnur sjónarmið hjá fagaðilum (Forseti hringir.) sem benda í aðra átt, að þetta sé ekki skynsamlegur kostur.

Herra forseti. Vinsamlega setjið mig aftur á mælendaskrá.