150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:12]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Í þessari ræðu ætla ég að tala um almenningssamgöngur í Reykjavík, en ég get ekki byrjað ræðuna öðruvísi en að minnast á að ef marka má hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé þá eru menn núna í vegheflum, hjólaskóflum og búkollum báðum megin Axarvegar upp í Skriðdal og niður í Berufjörð að bíða eftir því að Miðflokkurinn hætti að tala. Þetta er málflutningur sem er náttúrlega fyrir neðan allar hellur, herra forseti, og ekki orðum á eyðandi, en ég varð engu að síður að láta þetta frá mér fara.

Mig langar til að fara aðeins yfir almenningssamgöngur í Reykjavík. Borgarstjórnarmeirihlutinn og þeir sem vilja borga brúsann fyrir hann á þinginu eru þess albúnir að veita u.þ.b. 50 milljarða í eitthvað sem lappa á upp á almenningssamgöngur að þeirra mati, í stað þess að bæta þær sem fyrir eru, eins og menn hafa gert t.d. í Álaborg og víðar. En það er svo undarlegt að mitt í öllu þessu tali um að bæta almenningssamgöngur er borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík að þrengja að almenningssamgöngum, og ekki bara að þeim, heldur líka að öllum öðrum sem leið eiga um borgina. Ég ætla að nefna tvö dæmi:

Annað dæmið er Geirsgatan í Reykjavík þar sem nú á að þrengja svo mikið að ef strætisvagninn er þar á ferð og þarf að hleypa út farþegum eða taka inn farþega þá hreyfir sig enginn á meðan, enginn. Það er ekki alveg svona slæmt í Borgartúni en u.þ.b. eins slæmt. Ef strætisvagn þarf að taka upp farþega eða hleypa út farþegum er umferðin nánast stöðvuð á meðan. En síðan er kannski mesta snilldin af öllu, herra forseti — ég svo sem ekkert rosalega víðförull, en ég held að ég hafi aldrei séð það nokkurs staðar þar sem ég hef komið að sett sé upp strætisvagnabiðstöð inni í miðju hringtorgi eins og gert hefur verið vestur á Melum. Þegar menn voru spurðir um það held ég útskýringin hafi verið einhvern veginn þannig, ég verð þá leiðréttur ef það er rangt hjá mér, að í raun réttri væri hringtorgið ekki hringtorg heldur hringlaga akbraut. Það þarf náttúrlega sérstaka hæfileika til þess að komast að slíkri niðurstöðu.

Þess vegna er ég að velta þessu fyrir mér, ég er reyndar ekki enn búinn að sjá að svokölluð borgarlína eigi að fara vestur á Mela, enda vandséð hvernig hún ætti t.d. að hlykkjast milli þrenginga á Birkimel. Það er mjög erfitt að sjá það fyrir sér, fyrir utan það að ef borgarlína er eins og henni er lýst, einhver ofurstrætisvagn sem er kannski með tveimur til þremur tengingum eða vögnum, þá held ég að erfitt yrði að fara um Hagatorg ef strætisvagn af þeirri stærð stoppaði í miðju Hagatorginu fyrir framan Hótel Sögu til að hleypa út farþegum eða taka upp farþega.

Með þessu er ég að segja að það er allt á eina bókina lært í þessum málum á höfuðborgarsvæðinu, því miður. Og þegar menn eru búnir að múra sig svona inni eins og búið er að gera — og ég verð líka að segja, af því að ég minntist á skert aðgengi Seltirninga að borgarlandinu, að þessi þrenging á Birkimel er liður í því, herra forseti. Á Birkimel var óhindruð umferð fram og til baka, en er nú orðin þrengd mjög og er ein leiðin í viðbót sem þrengist fyrir þá sem búa vestan borgarmarkanna, á Seltjarnarnesi. Allar þessar þrengingar eru náttúrlega liður í því, segja menn, að kasta einkabílnum eða fjölskyldubílnum fyrir róða, sem er illt fyrir þá sem þurfa að nota fjölskyldubíl. En engu að síður, ef menn ætla að greiða almenningsfarartækjum leið þá gera þeir það ekki með því að þrengja götur eins og Geirsgötuna, sem er þar að auki útsett fyrir olíuflutninga, eins og ég á eftir að fara nánar yfir í seinni ræðu, eða með því að setja upp strætisvagnabiðstöð á miðju hringtorgi. Ég þarf eiginlega að leita að því hvort slíkt fyrirfinnst einhvers staðar og læt þess getið í næstu ræðu, sem ég ætla að biðja forseta að skrá mig í.