150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Í síðustu ræðu ræddi ég mikilvægi þess að stofnvegir á höfuðborgarsvæðinu yrðu byggðir upp og lagaðir til að þeir gætu mætt mjög auknum þörfum með aukinni umferð á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur mjög lítið gerst í þeim efnum, sérstaklega síðastliðinn áratug á meðan framkvæmdastoppið svokallaða hefur verið í gildi. Reyndar var þá þegar þörfin orðin brýn fyrir umtalsverðar úrbætur. Efst á blaði er auðvitað Sundabrautin. Það er alveg ótrúlegt að fylgjast með því hvernig borgarstjórnarmeirihlutinn fær að komast upp með að leggja stöðugt steina í götu þess verkefnis, oft á tíðum með mjög ósvífnum hætti, og koma jafnvel í veg fyrir hagkvæmustu legu brautarinnar með ýmsum framkvæmdum, skipuleggja svæði með þeim hætti að það verður sífellt erfiðara að koma Sundabrautinni fyrir. Ríkið þarf þarna að fara að taka á sig rögg og keyra áfram Sundabrautarverkefnið sem, eins og fram kemur í grein Gests Ólafssonar skipulagsfræðings sem ég vísaði í áðan, ætti auðvitað að vera löngu búið að klára. Það hefði raunar átt að fara í það fyrir 40 árum. Svoleiðis að þörfin er orðin brýn.

Í lok ræðu minnar um stofnbrautirnar nefndi ég það sem hefur ekki verið rætt nógu mikið í þessari umræðu; áformin um aukna gjaldtöku af vegfarendum. Það eru ýmiss konar gjöld lögð á bílaeigendur með ýmsum hætti og þessi gjöld hækka jafnan á hverju ári og sérstaklega hafa þau hækkað undanfarin ár og ný gjöld verið fundin upp og þeim bætt við, kolefnisgjald og eitt og annað sem kallað er grænir skattar. En að ætla svo í ofanálag að fara að leggja á veggjöld er of langt gengið af hálfu ríkisvaldsins gagnvart skattpíndum almenningi.

Það væri auðvitað skiljanlegt að fram færi slík umræða ef gjaldtakan væri ekki nú þegar eins mikil og hún er og raunar það mikil að ekki nema um helmingur af því sem er innheimt af umferðinni, af ökumönnum, bíleigendum, fer í uppbyggingu samgönguinnviða. Þá er ég ekki einu sinni að telja með virðisaukaskattinn sem leggst ofan á þetta allt saman. Bara þau gjöld sem eru lögð á umferð eru slík að ef þau yrðu einfaldlega nýtt í samgöngumál væri hægt að gera stórkostlegt átak, raunverulegt átak í samgöngumálum, þ.e. átak sem væri fjármagnað, ekki loftkastalar eins og ríkisstjórnin og borgarstjórnarmeirihlutinn byggja og sýna okkur á glærum. Það vantar fjármögnun.

Þá er bent á að með breyttum bílum, til að mynda með aukinni notkun rafmagnsbíla, missi ríkið af tækifærinu til að leggja skatta og gjöld á eigendur slíkra bíla, skatta og gjöld sem eru innheimt í gegnum eldsneyti. En ef ríkinu væri alvara með að vilja einfaldlega breyta gjaldtökunni fremur en að auka álögurnar væri hægðarleikur, samhliða áformum um ný veggjöld, að lækka eða afnema önnur gjöld. En munu menn gera það? Ég er hræddur um ekki. Þegar ríkið er búið að setja á skatt þá er reynslan yfirleitt sú að hann er þar áfram til langrar framtíðar og hækkar frekar en hitt. Við þessar aðstæður, á meðan almenningur er þetta skattpíndur og ökumenn þurfa að borga tvöfalt meira fyrir að nota vegi landsins en fer í að byggja þá og viðhalda þeim, er tómt mál að tala um nýja gjaldtöku.