150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

biðlistar og stefna ríkisstjórnarinnar.

[11:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. En ég vil ítreka sem faðir með veikt barn og sem einstaklingur sem hefur þurft að vera á biðlista í langan tíma, meira en ár, að það er ekki til neitt verra en það. Og það á ekki að dæma fólk í fangelsi, því að þetta er ekkert annað en fangelsi vegna veikinda. Látum vera að við forgangsröðum málum í sambandi við fullorðna einstaklinga, en við getum ekki leyft okkur það gagnvart börnum. Það gengur ekki að við þurfum að koma hér upp aftur og aftur og berjast gegn því að biðlistar barna sem þurfa lífsnauðsynlega þjónustu sé hunsaðir og að allt sé alltaf óbreytt. Það gengur ekki lengur.