150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fyrirvari í nefndaráliti.

[14:46]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég er í senn ákaflega hryggur og reiður. Í morgun gerðist það í hv. fjárlaganefnd að meiri hlutinn tók sér ritstjórnarvald á þeim fyrirvara sem ég vildi setja við stuðning minn við fjárauka sem þar var tekinn út. Meiri hlutinn gengur þar með þvert á það sem hér hefur tíðkast undanfarið. Ég verð að segja að mér þykir ansi hart að meiri hlutinn þoli ekki minnihlutaálit eða fyrirvara við stuðning við málið en ætli sér virkilega að ritstýra fyrirvara mínum við málið. Þetta er algerlega fáheyrt, herra forseti, og ekki líðandi.