150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fyrirvari í nefndaráliti.

[14:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ætli ég sé ekki búinn að vera hér í ellefu ár, eitthvað svoleiðis, en ég man aldrei eftir að hafa heyrt um þess háttar uppákomu. Að meiri hluti nefndar taki að sér að ritrýna og stýra því sem stuðningsmaður sama meiri hluta skrifar eða leggur til. Það held ég að sé fáheyrt, herra forseti, að meiri hlutinn skuli taka að sér að reyna að hafa vit fyrir hv. þingmanni sem ætlar að skrifa undir álit meiri hlutans þó að það sé með fyrirvara. Til hvers er þá fyrirvari ef menn mega ekki koma skoðunum sínum á framfæri, ef þeir mega ekki telja upp það sem þeim finnst gott eða slæmt, það sem betur hefði mátt fara eða það sem þeir hafa lagt til í málinu? Til hvers er verið að bjóða upp á að vera á málinu með fyrirvara? Er þetta ekki fyrst og fremst enn ein sönnun þess að þessi ríkisstjórn, fulltrúar hennar í nefndum, hefur ákveðið að fara bara sínu fram: Látum minni hlutann vera, hann er bara fyrir, til leiðinda. Tökum þetta í okkar hendur og klárum þetta með ofbeldi.