150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fyrirvari í nefndaráliti.

[15:00]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það er vissulega virðingarvert af hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, þingmanni VG, sem er fulltrúi þess flokks og ríkisstjórnarinnar í fjárlaganefnd að koma hingað upp og reyna að bera í bætifláka fyrir þetta mál. En það verður að segjast eins og er að björgunarleiðangurinn er eiginlega frumlegri en það sem átti að bjarga. Hér kemur hv. þingmaður og talar um að útskýringin sé sú að það sé eiginlega álitamál hvort áheyrnarfulltrúi eigi að vera með skriflegan fyrirvara og það sé ástæðan. Við skulum vera með það alveg á hreinu að það er ekki ástæðan vegna þess að meiri hlutinn var ekki að hafna skriflegum fyrirvara áheyrnarfulltrúans Jóns Steindórs Valdimarssonar. Meiri hlutinn var að ritstýra fyrirvaranum, gerði efnislega tillögu, skilaði því til baka og sagði: Svona máttu hafa þetta. Um það snýst málið og ég bíð spennt eftir næstu frumlegheitum.