150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fyrirvari í nefndaráliti.

[15:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Þetta er alveg með ólíkindum. Meiri hlutinn er byrjaður að taka sér ritstjórnarvald. Ég spái því að þetta rit, sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson hefur m.a. réttilega bent á, verði næsta fórnarlambið hjá meiri hlutanum á þingi, því verði ritstýrt upp á nýtt af því að verklagsreglurnar þar henta ekki upp á það að meiri hlutinn geti komið fram sínum sjónarmiðum. Þetta er grafalvarlegt mál. Hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson studdi meiri hlutann og það hefur verið kallað eftir því að við styðjum annars ágæt mál frá ríkisstjórninni. Við í Viðreisn höfum gert það af einlægni og komið með okkar tillögur og loksins hefur verið hlustað á þær núna. En þá megum við ekki einu sinni minnast á það og það á bara að sussa það niður. Það má enginn vita það að ágætar tillögur meiri hluta þingsins eru komnar frá Viðreisn. Það er stóra málið. Það má ekki segja frá því af því að venjan er að hér hafa allar tillögur minni hlutans verið stráfelldar. (Forseti hringir.) Þetta er ekkert annað en ritstýring. Það er búið að tala um að þetta sé frumlegt. Já. Þetta er fyndið, já, en þetta er líka grátlegt. Þetta er sorglegt.