150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Við ræðum samgönguáætlun. Ég var búinn að tala um borgarlínuna og ágalla sem við Miðflokksmenn sjáum á henni. Ég ætla að tala um þetta svokallaða lausnargjald, sem við höfum nefnt svo sumir hverjir í þessari umræðu. Lausnarjaldið er raunverulega það sem nágrannasveitarfélögin og ríkið hafa ákveðið að reiða fram til að losna úr þeirri herkví sem umferðin á höfuðborgarsvæðinu hefur verið í síðustu ár og áratugi, þ.e. verið hefur framkvæmdastopp. Ekki hefur verið hægt að framkvæma neitt á stofnbrautum og ekkert hefur verið framkvæmt hvað varðar mislæg gatnamót og uppbyggingu stofnbrauta með þeim afleiðingum að umferðin hefur verið algerlega í harðastoppi á svæðinu í fjölmörg ár. Það er náttúrlega alþekkt í lögreglumálum að þegar mönnum finnst að það sé kreppa, og sérstaklega þegar þeir geta losnað út úr henni með því að reiða eitthvað af hendi, sérstaklega ef þeir þurfa ekki að greiða það sjálfir, þá eru þeir tilbúnir að greiða eitthvað fyrir því að losna út úr því.

Til að losna undan þessu framkvæmdastoppi hafa nágrannasveitarfélögin, og núna nýverið ríkissjóður, ákveðið að reiða fram fé í það sem við köllum borgarlínu, greinilega í því augnamiði að ljúka þessu framkvæmdastoppi, vegna þess að saman við þetta hanga í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins ýmsar aðrar framkvæmdir sem eru góðar og við Miðflokksmenn styðjum heils hugar, að hér verði byggðar upp stofnbrautir og mislæg gatnamót og þannig greitt úr umferðinni sem verið hefur stopp hér síðustu ár. Lausnargjaldið er kannski ekki mjög hátt sem nágrannasveitarfélögin reiða fram vegna þess að ríkið tekur meginþungann af þessu lausnargjaldi á sínar herðar og leggur meira að segja til sem lausnargjald eitt verðmætasta byggingarlandið sem nú er laust á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Keldnalandið, rúmlega 100 hektara lands á besta stað í borginni til byggingar og reiðir það fram. Samningar um það land eru fullkomlega óljósir, hver á að njóta góðs af uppbyggingu á því svæði þegar það svæði verður afhent inn í þennan samgöngusáttmála.

Þetta er lausnargjaldið, en það eru ekki bara nágrannasveitarfélögin sem reiða fram einhver hundruð milljóna eða milljarða heldur ríkið sérstaklega. En fyrst og fremst eru það vegfarendur, vegna þess að inni í þessum sáttmála er gert ráð fyrir að þessi tafagjöld, sem svo voru kölluð lengi vel en eru í dag kölluð flýtigjöld, séu greidd af vegfarendum fyrir það að aka hér næst miðborginni í því augnamiði að tefja umferðina það mikið, láta hana kosta það mikið fyrir þá sem vilja aka um á fjölskyldubílum að menn hreinlega yfirgefi hann og stökkvi upp í næsta strætó. Vegna þess að borgarlínan útrýmir ekki strætisvögnum heldur er hún hrein viðbót, þ.e. það verða einhvers konar vagnar; léttvagnar eða hraðvagnar eða liðvagnar eða hvað þetta heitir, sem ferðast um á þessum rauðu reglum sem liggja hér frá hjarta höfuðborgarsvæðisins í nokkrar áttir. Verða gerðar sér akreinar fyrir þá með tilheyrandi kostnaði sem er alls ekki komið í ljós hver verður og það er illa útfært. Sums staðar verður þrengt að fyrirliggjandi umferð þannig að það verða enn þá meiri tafir en við höfum séð hingað til. Þetta er allt gert í þeim tilgangi að neyða fólk til að nota þessar samgöngur sem fólk hefur ekki viljað nota hér á landi hingað til nema að litlu leyti.