150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:42]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við erum í þeirri stöðu að vera í mesta efnahagssamdrætti sem um getur. Gjaldeyristekjur þjóðarinnar hafa hrunið. Það er atvinnuleysi, ríkissjóður er kominn í stórfelldan halla og svo mætti áfram telja. Þá stendur Sjálfstæðisflokkurinn og náttúrlega ríkisstjórnin að því að ætla að verja 50 milljörðum, herra forseti, úr ríkissjóði í svokallaða borgarlínu.

Það er alveg glöggt að innan Sjálfstæðisflokksins er ekki eining um þetta mál. Það sást mjög skýrt af ræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen fyrr í þessari umræðu þar sem hún vék ekki að borgarlínu öðruvísi en að kalla hana svokallaða og talaði ítrekað um hana sem fyrirbæri í sinni ræðu. Það er sömuleiðis ljóst að miklir áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum hafa lagst mjög gegn þessu, til að mynda Björn Bjarnason ítrekað á sinni bloggsíðu og sömuleiðis hefur í ritstjórnargrein Morgunblaðsins verið lagst eindregið gegn þessu.

Með leyfi forseta ætla ég að vitna til ritstjórnargreinar í Morgunblaðinu í dag, 22. júní. Yfirskrift leiðarans er: Mikilvægar umræður um samgöngumál. Eins og menn þekkja er Morgunblaðinu ritstýrt af fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra til margra ára. Í leiðaranum segir, með leyfi forseta:

„Borgarlína er ólík flestum öðrum samgönguverkefnum að því leyti að litlar líkur eru á að hún muni skila þeim árangri að greiða fyrir umferð og gæti þvert á móti orðið til að þrengja enn frekar að umferðinni í Reykjavík, sem má alls ekki við slíku.“

Ég vil skjóta inn að ritstjóri Morgunblaðsins var sömuleiðis borgarstjóri í Reykjavík til margra ára. En áfram segir í ritstjórnargreininni:

„Á laugardag vék Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að þessu í umræðum um samgönguáætlun á Alþingi og benti á að borgarlína myndi hafa þau áhrif að taka eina akrein af einkabílnum. Augljóst er að fjölgi þeim leiðum þar sem slíkt er gert mun það gera umferð á höfuðborgarsvæðinu enn erfiðari en nú er. Þá benti hann á að tilkoma borgarlínu þýddi ekki að strætó hyrfi af sjónarsviðinu, því að áfram þyrfti strætisvagna til að flytja fólk til og frá borgarlínunni, enda á borgarlínan að verða kerfi risavagna sem ekki komast fyrir á hefðbundnum götum og þurfa sérstakar akreinar og aðra umgjörð. Þetta verður því tvöfalt almenningssamgöngukerfi á ekki fjölmennara svæði, sem segir sitt um hve afleit hugmyndin er.

Sigmundur Davíð sagði enn fremur að líkur væru á að framkvæmdir við borgarlínuna færu fram úr áætlun og að auki lægi ekkert fyrir um áætlaðan rekstrarkostnað. Þetta er vitaskuld stórkostlegur galli á áformunum, ekki síst í ljósi þess að búið er í tæpan áratug að setja heilan milljarð aukalega á ári í rekstur strætisvagnakerfisins á höfuðborgarsvæðinu án þess að það hafi skilað nokkrum árangri. Hversu háa fjárhæð þarf til viðbótar á hverju ári þegar þunglamalegu og ofvöxnu borgarlínukerfinu verður bætt við?“

Ég sé ástæðu til að fjalla frekar um þessa ritstjórnargrein en mér vinnst ekki tími til þess miðað við þann tíma sem mér er gefinn. En ég árétta það og undirstrika, herra forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn sýnist algerlega klofinn í þessu máli og væri sæmst að því að draga þennan þátt samgönguáætlunar til baka.