150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:36]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Það hefur vakið athygli mína í þessari ágætu umræðu um samgönguáætlun, bæði til styttri og lengri tíma, undanfarna daga hvað hún er farin að vekja athygli úti í samfélaginu. Það er mjög ánægjulegt að sjá það og hvernig fólk er að bregðast við og líka það sem maður sér skrifað í greinum fjölmiðla. Það er ekki mikið um þetta í fréttum, ekki efnislega, en það voru þrjár greinar í Morgunblaðinu í dag og hafa verið greinar í Fréttablaðinu og víðar. Eins er töluvert mikið á netmiðlum og kommentakerfum og slíku. Í mínum huga er eins og fólk sé svolítið að vakna upp af dvala hvað varðar þessi mál og segir mér hvað þetta hefur í raun og veru fengið litla umræðu. Það segir mér kannski líka að það er ekki mikil pólitík í þessu, ekki þvert yfir þann pólitíska öxul sem maður er uppalinn við að á að vera virkur. Kannski er ein skýringin á því hvernig þessi ríkisstjórn er samansett og stjórnarandstaðan er samansett. Umræðurnar á pólitískum vettvangi sem eiga að fara fram í þingsal eru bara frekar máttlausar hvað þetta varðar.

Ég verð svolítið dapur yfir þessu vegna þess að við erum að ræða stórmál sem varðar eina aðalinnviðauppbyggingu landsins. Það eru samgöngur. Það hefur farið mikill tími í það hér að ræða um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu sem hafa verið vanræktar í áratugi, má segja. Okkur í mínum flokki, Miðflokknum, hefur verið borið á brýn að við séum tafaflokkur, að við viljum tefja fyrir þessum málum, sem er algjör fásinna. Það er alls ekki þannig. Við höfum einmitt talað um það og það kemur skýrt fram í nefndaráliti 2. minni hluta í umhverfis- og samgöngunefnd, frá hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni og hv. þm. Bergþóri Ólasyni, en þar segir að 2. minni hluti fagni auknu fjármagni sem áætlað er að verja til samgangna á breiðum grundvelli. En svo segir hér aftar: „2. minni hluti gerir alvarlegar athugasemdir við áætlanir um þau framlög til samgöngusáttmálans sem snúa að borgarlínu.“ Það er sérkapítuli í þessu bixi sem hefur verið gagnrýndur líka, hvernig nálgunin er á því sem er hér til umræðu síðar, stofnun opinbers hlutafélags um samgöngusáttmála sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem borgarlínan er sett þar inn. Það höfum við gagnrýnt.

Svo langar mig í lokin á þessum ræðutíma mínum, sem er allt of stuttur og óska ég eftir að hæstv. forseti setji mig aftur á mælendaskrá, að minnast á það að þingmenn meiri hlutans hafa talað um að ekki sé minnst á borgarlínu í nefndaráliti meiri hlutans. Það er rangt. Það er minnst á það á tveimur blaðsíðum, skýrum stöfum. Það segir að í samgöngusáttmálanum sé gert ráð fyrir umtalsverðum framkvæmdum við innviði allra samgangna á höfuðborgarsvæðinu, m.a. borgarlínu og aðrar strætisvagnaleiðir, göngu- og hjólastíga, og að gert sé ráð fyrir að ljúka (Forseti hringir.) fyrstu áföngum borgarlínu á fyrsta tímabili samgönguáætlunar. Það er því heldur betur talað um þetta í nefndarálitinu.