150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég hef rætt mikið um lausnargjaldið sem menn hafa ákveðið að greiða vegna borgarlínu og ef menn skyldu vera í vafa um að um sé að ræða sannkallað lausnargjald þá hafa greinar og umræður síðustu daga virkilega leitt í ljós að sú er raunin. Menn hafa ákveðið að greiða fé til borgarlínu sem tilraun til að losa umferðarhnúta á höfuðborgarsvæðinu. En hugsanlega ekki í Reykjavík heldur aðallega í kringum borgina. Ég vil í því sambandi vitna í ræðu hv. þm. Sigríðar Ásthildar Andersen sl. fimmtudag um samgönguáætlun þar sem hún segir, með leyfi forseta:

„Höfuðborgarsáttmálinn gagnast hins vegar þessum nágrannasveitarfélögum okkar ágætlega. Þau eru að fá langþráðar vegaframkvæmdir sem hafa setið á hakanum af hálfu ríkisins undanfarin ár og óska ég þeim til hamingju með það. Í ofanálag fá þau þessa borgarlínu sem mér sýnist að þau þurfi lítið að leggja út fyrir, nágrannasveitarfélögin, heldur komi þetta að mestu leyti úr hendi ríkisins með einhvers konar gjaldtöku.“

Það eru fleiri á þessari skoðun en við Miðflokksmenn. Sjálfstæðisflokkurinn virðist klofin í herðar niður í afstöðu til málsins enda kannski skiljanlegt þar sem þeir eru í minni hluta í borgarstjórn en í meiri hluta í ríkisstjórn, m.a. með þeim flokkum sem mynda meiri hlutann í borgarstjórn. Það er því erfitt um vik. Mér sýnist Sjálfstæðisflokkurinn klofinn alveg niður í rót í málinu, eins og hv. þm. Ólafur Ísleifsson orðaði það. Mér sýnist á orðum hv. þm. Sigríðar Á. Andersen og leiðarahöfunda Morgunblaðsins í morgun og grein Eyþórs Arnalds, einnig í morgun, að skoðanir þeirra á málinu séu mjög skiptar. Þau vita líklega ekki sitt rjúkandi ráð eða hvernig þau eigi að bregðast við. Það er auðvitað alvarlegt, herra forseti, ef það á að kosta skattgreiðendur í þessu landi milljarða á milljarða ofan að fara í ævintýri sem er, samkvæmt orðum hv. þm. Sigríðar Á. Andersen, óútfært fyrirbæri.

Það á að fara í þetta ævintýri sem kemur úr draumaverksmiðju meiri hlutans í Reykjavík núna á þessum tímum. Af hverju erum við að ræða þetta? Vegna þess að efnahagsástandið er allt annað en var bara í september þegar skrifað var undir samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Þá skrifuðu ríkið, nágrannasveitarfélög Reykjavíkur og Reykjavík undir sáttmála um að setja, að mati þess tíma, tæpa 50 milljarða í borgarlínu. Síðan þá hefur maður heyrt hærri tölur og margir spá því, og hafa skrifað um það langar og ítarlegar greinar, að það muni kosta miklum mun meira heldur en þessa 50 milljarða.

Þarna kemur nýr þingmaður inn í salinn, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson. Býð ég hann velkominn og það er gaman að fá fleiri þingmenn til að taka þátt í umræðunni en við erum að ræða þetta vegna þess (HHG: Takk.) að staðan í ríkisfjármálum er allt önnur en hún var fyrir átta mánuðum síðan þegar skrifað var undir þennan sáttmála. Núna er fjárhagsstaða ríkissjóðs allt önnur og verri en þegar það var gert. Þess þá heldur höfum við ekki efni á að leika okkur með fé skattborgaranna á þann hátt sem hér virðist vera, þ.e. með borgarlínu. Umferðarverkfræðingurinn Þórarinn Hjaltason hefur skrifað um það að rökstuðningur á bak við borgarlínu sé mjög áróðurskenndur.