150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:34]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði í þessari ræðu að halda aðeins áfram umfjöllun minni um það hvernig Reykjavíkurborg sé treystandi í samskiptum hvað skipulagsmál varðar. En ég ætla að taka smáútúrdúr. Það kemur til af því að hér í dag var umræða þar sem hæstv. samgönguráðherra svaraði óundirbúinni fyrirspurn frá mér um hvaða mál það væru sem frestuðust ef samgönguáætlun væri ekki samþykkt núna. Hæstv. ráðherra fór mikinn í þætti sem heitir Víglínan á Stöð 2 í gær þar sem ég held að hann hafi fjórum sinnum sagt að hann hreinlega tryði því ekki að einhver flokkur á þingi ætlaði að þvælast fyrir framkvæmdum í landinu. Það er ekkert fjær okkur í Miðflokknum en að leggja stein í götu framkvæmda. Það er nú bara þannig. Það þekkja allir sem hafa fylgst með okkar störfum.

Staðreyndin er sú að við viljum leggja stein í götu þess að það verði opnaður krani fjármuna úr ríkissjóði í gegnum svokallaða borgarlínu þar sem öll plön eru illa grunduð, hvort sem er upphaflegi fjárfestingarkostnaðurinn, svo ekki sé talað um reksturinn því að þar liggja engar áætlanir fyrir þó að búið sé að hanna húsgögnin í biðskýlin. Það á að kynna þau með pompi og prakt úti í Ráðhúsi eftir tvo daga.

Það sem ég hef áhyggjur af eru orð hæstv. samgönguráðherra sem segir í viðtali á mbl.is, með leyfi forseta:

„Ef frumvörp eru ekki samþykkt hefur Vegagerðin ekki heimild til að ganga til samninga, öll útboð frestast, undirbúningur sömuleiðis og það frestar öllu verkinu.“

Þarna virðist hæstv. ráðherra vera að teikna upp þá mynd eða gera tilraun til þess að hér sé bara allt að lenda í harðastoppi ef samgönguáætlun eins og hún liggur fyrir með þessari óvarlegu borgarlínuútfærslu sem nú er í undirbúningi, verður ekki kláruð helst í dag. Það er talað með dramatískum hætti um að einn dagur í umræðu hér samsvari meiri háttar töfum í framkvæmdum. En hver er staðreyndin? Þar kom fram býsna vel í morgun þegar hæstv. ráðherra svaraði óundirbúinni fyrirspurn minni um það hvaða verkefni akkúrat það væru sem myndu frestast. Hæstv. ráðherra gat ekki nefnt eina einustu framkvæmd, ekki eina, sem myndi frestast.

Staðreyndin er sú að það er í gildi samgönguáætlun sem Alþingi samþykkti fyrir rúmu ári síðan. Í lögum um samgönguáætlun er Alþingi uppálagt að endurskoða samgönguáætlun ekki sjaldnar en á þriggja ára fresti. Þar er engin tímapressa. Fyrir nokkrum vikum, nú eru sennilega komnir tveir mánuðir síðan, var samþykkt í þingsal fjáraukalagafrumvarp þar sem var rammað inn 15 milljarða fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar og af þeirri upphæð fóru 6,5 milljarðar í samgöngumannvirki og af þeirri upphæð rúmar 1.800 milljónir til hönnunar og vegaframkvæmda sem eru að komast af stað. Það er því ekkert verkefni að fara að tefjast þótt við þingmenn Miðflokksins viljum ræða þessa borgarlínu í meiri smáatriðum en hingað til hefur verið leyft eða gert. Það er bara þannig að mál eru í ágætisfarvegi og svokallað PPP-mál, samvinnuverkefnamálið sem ég ímynda mér að hæstv. ráðherra samgöngumála sé að vísa til, er ekki einu sinni komið á dagskrá. Þar virðist hæstv. ráðherra hafa valið þá leið sem síst var af þeim sem stóð til boða til að útfæra þessi verkefni, sem geta verið alveg prýðileg og ágæt. En það þarf enginn að halda því fram að umræða hér í nokkrar klukkustundir hjá okkur þingmönnum Miðflokksins tefji Sundabraut, tefji tvöföldun Hvalfjarðarganga, tefji jarðgöng um Reynisfjall. Hvaða vitleysa er þetta? Ölfusárbrúin, þar hefur Vegagerðin látið vita af því að óraunhæft sé að reikna með að komast af stað með framkvæmdir fyrr en árið 2022. Ekki tefst það út af umræðu um borgarlínu hér í dag.

Þetta er allt svo illa grundað hjá hæstv. ráðherra að hann verður á einhverjum tímapunkti að líta í eigin barm og ná utan um hvernig þetta bix vinnur allt saman, því af svörum dagsins í dag og viðtalinu við hann í gær í Víglínunni er algerlega augljóst (Forseti hringir.) að hann hefur þessar áætlanir sínar ekki í fingrunum, ef svo má segja, hvað tilfinningu varðar.