150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:39]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það er afar mikilsvert í umræðu um vandasöm og flókin málefni þegar hámenntaðir sérfræðingar leggja orð í belg. Til að mynda birtist í Morgunblaðinu í dag mjög athyglisverð grein eftir fyrrverandi prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands, Jónas Elíasson, á háskólamáli prófessor emeritus. Hann hefur látið sig borgarlínu varða og skrifað um hana a.m.k. nokkrar greinar sem ég man eftir í svipinn. En þetta er atriði sem hann hefur auðvitað sérþekkingu á sem verkfræðingur og verkfræðiprófessor.

Hann bendir á í grein sinni, herra forseti, að einkabílar séu hinn þolinmóði hluti umferðarinnar. Hann bendir sömuleiðis á og rökstyður þá fullyrðingu með því að segja að þeir séu fjórum sinnum lengur á leiðinni þegar umferðarstíflan kostar 30 mínútna seinkun á tíu mínútna leið en flestir munu láta sig hafa það, segir hann. Öðru máli gegni um atvinnubíla. Hann segir um þá að þegar þeir verða fyrir 30 mínútna seinkun á tíu mínútna leið þá detti afköst þeirra niður í einn fjórða og prófessor emeritus segir, með leyfi forseta:

„Og hver verða viðbrögðin við því? Það er að kaupa bíla í viðbót og hækka verðið tilsvarandi. Þetta er þegar byrjað.“

Í framhaldinu bendir hann á að einingarverð framkvæmda í erfiðustu hverfum miðbæjarins sé þegar um helmingi hærra en annars staðar. Prófessorinn segir að byggingarkostnaður íbúða þar sé 10–20 milljónum hærri. Hann segir í framhaldinu að stíflan sé komin til að vera og strætó komist ekki hindrunarlaust í gegnum þvöguna þótt á sérstökum brautum sé. Hann þurfi líka að taka beygjur.

Það má velta fyrir sér hvaða afleiðingar eru fyrir umhverfið og loftslagið af þeirri stefnu sem prófessorinn er að lýsa því að hann segir, með leyfi forseta:

„Verst er þó eldsneytið sem fer í súginn. Ætla má að stíflurnar taki nú allt að 20 tonnum (var um 10 fyrir nokkrum árum) á dag í aukalegri bensíneyðslu. Þetta er um 2% af bensíneyðslu landsins ef marka má eldsneytisbókhald Orkustofnunar. Að laga þetta er líklega árangursríkasta framkvæmd í umhverfismálum sem Ísland á kost á í dag.“

Hér falla öll vötn til Dýrafjarðar. Það er ekki bara að verkefnið sé reist á sandi í fjárhagslegu tilliti, með engar kostnaðaráætlanir sem hald er í, enga arðsemisgreiningu, enga rekstraráætlun og annað eftir því, heldur er það líka svo að þessi stefna er skaðleg fyrir umhverfið og loftslagið sérstaklega eins og prófessorinn rekur í Morgunblaðinu í dag. Þetta er aðgengilegt hverjum sem vill líta á. Ég þarf auðvitað að fjalla meira um (Forseti hringir.) fleiri hliðar þessa máls og bið hæstv. forseta vinsamlegast að setja mig að nýju á mælendaskrá.