150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:44]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Grundvallarstefið í málflutningi þeirra sem eindregið hafa mælt fyrir borgarlínu, og þá einkum borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík, hefur verið að bregðast við mannfjöldaspá, þar sem gert sé ráð fyrir að íbúum höfuðborgarsvæðisins muni fjölga um allt að 70.000 manns til ársins 2040. Við höfum séð að þróunin er svolítið önnur en menn hafa kannski verið að spá fyrir vegna þess að mikið hefur fjölgað í sveitarfélögunum í kringum höfuðborgarsvæðið, á Selfossi, í Hveragerði, í Árborg og í Reykjanesbæ á Suðurnesjum, svo að dæmi sé tekið. Það er einfaldlega vegna þess að þróun fasteignaverðs í Reykjavík hefur verið með þeim hætti að mun ódýrara er að kaupa sér húsnæði á þeim svæðum. Það gerir að verkum að fólk er ekki eins mikið að sækja í að kaupa sér fasteign í Reykjavík heldur hefur horft til þeirra svæða sem ég nefndi. Það sýnir að ekki er alveg ljóst að sú mannfjöldaspá sem gert er ráð fyrir í borgarlínuverkefninu sé eins raunhæf og menn halda við fyrstu sýn.

Það er nokkuð ljóst, og ég hef nefnt það í fyrri ræðum, að mikil áhætta fylgir þessu borgarlínuverkefni. Ýmsir hafa bent á það og m.a. þeir sem vel þekkja til, sérfræðingar í þessum efnum, að kostnaðurinn geti orðið mun meiri en rætt hefur verið um. Auk þess er rétt að halda því til haga að kaupverð á þessum sérstöku strætisvögnum sem stendur til að nota er ekki inni í þeirri áætlun. Það finnst mér ekki vera nógu góð vinnubrögð. Auðvitað á verðið á þeim að vera inni í þessu, heildarkostnaðurinn á að liggja fyrir. Og svo er það fórnarkostnaðurinn — er búið að reikna út hver hann er vegna borgarlínu? Það er verið að fórna þarna akreinum fyrir fólksbíla, þeim er fórnað fyrir vagna sem eiga síðan að keyra á fimm til tíu mínútna fresti og bílastæðum er fækkað og svo er það líka ákveðinn fórnarkostnaður að hér verða byggingarframkvæmdir næstu 10–15 árin með tilheyrandi raski og óþægindum fyrir þá sem búa næst þessu mannvirki. Það eru fjölmargir sem hafa miklar áhyggjur af því og hafa sent inn umsagnir um að sú leið sem búið er að teikna upp sé mjög nálægt íbúðahverfum og skerði lífsgæði þess fólks sem býr þar nærri.

Síðan er alveg ljóst að það verður tap á þessum rekstri, ég held að það sé alveg ljóst, en strætisvagnakerfið er í dag rekið með tapi. Sveitarfélögin munu þurfa að standa straum af því tapi. Sérfræðingar sem best þekkja til í þessum efnum telja líka að óraunhæft sé að áætlanir, um að fjölga þeim sem nota strætisvagna úr 4% í 12%, náist í gegn. Þá spyr maður sig: Til hvers er verið að fara af stað með þetta ef svo mikil óvissa er um að svo margir komi til með að nýta þetta dýra mannvirki? Samanlagt getur tapið numið milljörðum ár hvert, og hvers vegna er ekki talað um það í þessu öllu saman? Maður veltir því fyrir sér. Og hver á að standa straum af því? Á það að vera þannig að ríkissjóður komi til með að borga með þessu verkefni um ókomna framtíð? Það er eitthvað sem menn verða að sjálfsögðu að ræða hér og leggja línurnar með.

Herra forseti. Ég sé að tíma mínum er lokið og óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.