150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:07]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég var komin að Vegagerðinni síðast þar sem ég fjallaði um viðhaldskostnað. Hér er síðan fjallað töluvert um hönnunarstig og óvissu í kostnaðaráætlunum. Nefnt er að við hönnun og undirbúning vegaframkvæmda sé stuðst við fjögur stig áætlanagerðar. Fyrst er það skilgreining verkefnis og síðan frumdrög, forhönnun og verkhönnun. Þegar skilgreining er rædd þarf að gera grein fyrir helstu þáttum þess sem ráðast á í, t.d. vegtegund, lengd vegarkafla og staðsetningu, hönnunarumferð, hönnunarhraða, nýbyggingu eða endurbyggingu o.s.frv.

Síðan er komið að liðnum sem kallast frumdrög. Það er æskilegt að þau liggi fyrir 8–12 árum fyrir áætlað útboð á framkvæmdum. Þá eru dregnir fram kostir og gallar mismunandi valkosta með tilliti til skipulags, umferðar, landslags, veðurfars, jarðtækni og fleiri þátta. Síðan er það umfangsmikil upplýsingaöflun. Þar þarf að taka til landamerki og landeigendur, hönnunarreglur, umferð, veðurfar og slíkt.

Þriðji hlutinn er forhönnun en meginhönnun verkefnisins lýkur með henni. Gert er ráð fyrir að finna þurfi víðtækari gögn. Þá er verið að skilgreina betur umferð, veitur og jarðtækni og fleira sem er endurmetið. Í þessu þrepi er mannvirkið hannað og magn tekið í samræmi við fyrrnefnda þætti auk þess að gerð er grein fyrir frekari rannsóknum.

„Verkkönnun lýkur með framsetningu endanlegra gagna vegna byggingar mannvirkis ásamt gerð útboðs- og verklýsingar. Markmið eru yfirfarin og afurðir þessa þreps eru: Útboðsgögn, útboðs- og verklýsingar [...] mæligögn og kostnaðaráætlanir auk hönnunarrýni á framlögðum kosti.“

Í þingsályktunartillögunni segir að mikill munur sé á nákvæmni kostnaðaráætlana eftir hönnunarstigi og sagt er að gera megi ráð fyrir óvissu og skekkjumörkum eftir stigi eða tegund hönnunar.

Það er búið að setja niður helstu framkvæmdir eftir landsvæðum og ég ætla að nefna sérstaklega norður- og austursvæði til að glöggva mig betur á því. Það byrjar á hringveginum, Jökulsá á Fjöllum. Þar er fjallað um brúna sem við vitum að er veikasti hlekkurinn á norðurleiðinni ef suðurhluti hringvegarins lokast vegna náttúruhamfara. Gert er ráð fyrir fjárveitingu til undirbúnings á fyrsta tímabili áætlunarinnar en lagt er til að framkvæmdir verði á öðru tímabili. Norðausturvegur um Skjálfandafljót er næst tiltekinn og þá er ætlunin að endurgera veginn í Aðaldal um Skjálfandafljót á öðru tímabili áætlunarinnar og það á að leggja af tvær einbreiðar brýr, yfir Skjálfandafljót, sem margir þekkja og yfir Rangá hjá Ófeigsstöðum sem margir kannast líka við.

„Bárðardalsvegur vestri, Hringvegur – Sprengisandsleið. Fjárveitingin er ætluð til lagfæringar og lagningar bundins slitlags á veginn á 2. og 3. tímabili áætlunarinnar. Vatnsnesvegur [...] Fjárveitingin er ætluð til lagfæringar og lagningar bundins slitlags á 3. tímabili áætlunarinnar.“

Þetta eru ákveðin fyrirheit sem þó eru mörkuð einhverri óvissu. Þau eru samt komin fram og komin á blað, ef svo má segja. Við vonum að þau verði að veruleika.