150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:28]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég ætla að fagna þeim mikla áhuga sem virðist hafa vaknað meðal landsmanna um borgarlínu og birtist í fjölmörgum greinaskrifum undanfarna daga vegna þess að lítið hefur farið fyrir gagnrýni á borgarlínuna. Ég fagna því ef þessi umræða hér á þingi um samgönguáætlun, og umræða okkar Miðflokksmanna um borgarlínuna sérstaklega og aðra hluti sem við höfum fundið að í samgönguáætlun, leiðir til þess að umræða aukist. Ég held umræðan þurfi að þroskast, herra forseti, og ef hún gerir það og við höldum áfram að ræða þetta í samfélaginu þá eru meiri líkur til þess að menn taki skynsamlegar ákvarðanir og snúi hugsanlega af rangri braut ef um það er að ræða. Þannig að ég fagna þessari umræðu og ég fagna því að æ fleiri hafa tekið til máls í þessu máli, ekki síst á netinu og í dagblöðum, og þetta er rætt í útvarpsþáttum og víðar í samfélaginu. Ég held að umræðan sé mjög nauðsynleg vegna þess að mér hefur fundist umræðan um borgarlínu vera gagnrýnislítil, hún hefur farið mjög lágt og einkennst af skrautsýningum í fallegum umbúðum, hefur verið sett fram eins og fallegur jólapakki. Menn hafa veigrað sér við að finna að þessu og mér finnst það slæmt, herra forseti, ef svona dýrt, viðamikið og áríðandi verkefni á ekki að fá meiri umræðu, t.d. ef það er hugsanlegt að ná megi sama árangri fyrir miklu minna fjármagn og gera þetta með öðrum hætti eins og sumir hafa bent á. Ég ætla ekki að fara yfir það í þessari ræðu.

Ég ætla hins vegar að fara yfir annað mál í þessari ræðu sem ég held að mjög fáir geri sér grein fyrir. Ég ætla að fara yfir gjaldtökuhugmyndirnar. Ég veit ekki hvort almenningur í landinu gerir sér grein fyrir því hversu langt gjaldtaka á umferð á vegum er komin. Ég held að almenningur geri sér enga grein fyrir því hversu langt þetta er komið. Ég ætla að nota þessar tvær mínútur sem ég á eftir af þessari ræðu til að upplýsa hversu langt þetta er komið. Í því sambandi ætla ég að benda á þrjú þingmál sem liggja fyrir þingi núna og eiga eftir að klárast hér. Í öllum þessum þingmálum er minnst á gjaldtöku en öll nálgast það mál á mismunandi hátt.

Í fyrsta lagi er það í nefndaráliti um samgönguáætlun. Þar er rætt um gjaldtöku í jarðgöngum. Þar segir á bls. 11 um jarðgöng, með leyfi forseta:

„Nefndin styður einnig þá framtíðarsýn að bein framlög úr samgönguáætlun og jarðgangaáætlun standi undir hluta framkvæmdakostnaðar jarðganga, og að gjaldtaka af umferð fjármagni hluta auk þess sem hún greiði fyrir rekstur og viðhald ganganna.“

Hér í nefndaráliti um samgönguáætlun er gert ráð fyrir að það verði gjaldtaka af umferð sem fari um jarðgöng. Þetta er fyrsta málið.

Annað málið er frumvarp um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. stofnbrautir og borgarlínu. Hvað stendur þar? Í e-lið 3. gr., um hlutverk og verkefni þessa opinbera hlutafélags, segir, með leyfi forseta:

„Að innheimta flýti- og umferðargjöld á höfuðborgarsvæðinu, verði ákveðið með lögum að leggja slík gjöld á, og byggja upp innviði slíkrar innheimtu.“

Þetta er annað stjórnarþingmálið um gjaldtöku. Það þriðja er frumvarp til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Þar er einnig gert ráð fyrir gjaldtöku af umferð. Ég hef ekki tíma til að klára það en ég spyr bara: Hvert á þetta að leiða okkur? Hvernig verður umræðan þegar þetta er sett fram með þessum brotakennda hætti, herra forseti? Hér eru þrjú þingmál, öll gera ráð fyrir gjaldtöku á mismunandi forsendum í mismunandi verkefnum. (Forseti hringir.) Ég mun fara nánar í þetta í næstu ræðu.